Telja ekki þörf á frekari aðgerðum á svæðinu

Askja.
Askja. mbl.is/Sigurður Bogi

„Landris hefur verið hægt og bítandi síðan haustið 2021 og nær nú um 70 cm. Aðrir þættir hafa ekki verið [að] aukast, s.s. jarðskjálftar sem væri helsti fyrirboði frekari óvissu. Vísbendingar eru þó um mögulega aukin jarðhita og verður vel fylgst með því.“

Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Lögreglan á Norðurlandi eystra fundaði með fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands, Vatnajökulsþjóðgarði, lögreglunni á Austurlandi, Þingeyjarsveit og aðgerðastjórnendum í umdæminu vegna Öskju.

Niðurstaða fundarins var sú að ekki er talin þörf á frekari aðgerðum né aðgangsstýringum að svo stöddu. Lögreglan biðlar þó til þeirra sem fara inn á hálendið að hafa í huga að óvissustig er í gildi á svæðinu

Hyggjast setja upp vefmyndavél

„Ferðaþjónustuaðilar er hvattir til að upplýsa sína viðskiptavini um stöðuna og fylgjast vel með þeim tilkynningum sem koma frá lögreglunni og Veðurstofunni hverju sinni. Við munum koma öllum upplýsingum á framfæri hverju sinni teljum við þörf á,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni er greint frá því að Veðurstofa Íslands meti stöðuna sem svo að lítið sé búið að breytast með tilliti til Öskju og að áfram verði fylgst vel með stöðunni. 

Eins og greint hefur verið frá eru fulltrúar frá Veðurstofu Íslands við Öskju í dag til að gera frekari rannsóknir. Verður jafnframt sett upp frekari mælitæki fyrir jarðhitamælingar í Víti og skjálftamælingar vestan við Öskju. Vatnshiti í Víti mældist 27 gráður fyrir nokkru, sem er um níu gráðum hærra en mælst hefur í sumar.

Þá er einnig stefnt á að setja upp vefmyndavél á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert