Flokkur fólksins hefur lagt fram 60 þingmannamál

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokkur fólksins hefur lagt fram alls 60 þingmannamál í upphafi nýs þings. Þar af eru nokkur forgangsmál sem snúa að breyttum skattleysismörkum í þágu þeirra verst settu, breyting á almannatryggingakerfinu, bættri dýravelferð, bættri réttarstöðu leigjenda og lögfestingu á mannréttindum fatlaðs fólks. 

Áherslur flokksins eru að útrýma fátækt og misskiptingu. Hækka skattleysismörk í 400.000 krónur með því að taka upp fallandi persónuafslátt samhliða því að hækka lágmarksframfærslu almannatrygginga í 400.000 krónur, skatta- og skerðingarlaust, að því er fram kemur í tilkynningu frá Flokki fólksins. 

Fjárhæðir almannatrygginga fylgi launavísitölu

Þá segir að ef fólk eigi að geta náð endum saman, á sama tíma og verð á nauðsynjavörum og húsaleigu hækkar um hver mánaðamót, þá sér algjört grundvallaratriði að tryggja 400.000 króna lágmarksframfærslu. 

Til að ná fram þessu markmiði leggur flokkurinn fram frumvarp um að hækkun greiðslna almannatrygginga muni framvegis fylgja launaþróun, eins og hún kemur fram í launavísitölu Hagstofu Íslands. Þannig sé geðþóttavaldið tekið úr höndum stjórnmálamanna og tryggt að kjör lífeyrisþega almannatrygginga fylgi launaþróun, en ekki ákvörðunum stjórnmálamanna hversu sinni um hvort þeir vilji fylgja launaþróun eða vísitölu neysluverðs þegar fjárlög eru samþykkt hverju sinni. 

Frysta til bráðabirgða leigu 

Flokkurinn vill jafnframt frysta til bráðabirgða fjárhæð leigu á leiguhúsnæði til ársloka 2025. Á því tímabili yrði þannig óheimilt að hækka fjárhæð leigu við framlengingu, endurnýjun eða gerð nýrra leigusamninga um íbúðarhúsnæði umfram 2,5% á sama húsnæði í samræmi við opinbert verðbólgumarkmið. 

Auk þess að gerð verði breyting á húsaleigulögum sem miða að því að styrkja réttarstöðu leigjenda, meðal annars með því að efla forgangsrétt leigjenda við endurnýjun leigusamninga.

Mannréttindi fatlaðs fólks 

Hvað varðar lögfestingu á mannréttindum fatlaðs fólks þá samþykkti Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019 og leggja fram frumvarp þar um eigi síðar en 13. desember árið 2020. Í kjölfarið var ákveðið að þýða samninginn að nýju, ný þýðing var lögð fram í mars árið 2021 og samþykkt á Alþingi í maí það sama ár. 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var því lofað að samningurinn yrði lögfestur, en nú um mitt kjörtímabilið hefur ríkisstjórnin enn ekki lagt fram frumvarp. Flokkur fólksins telur nóg komið og leggur því fram frumvarp þess efnis. 

Bann við blóðmerahaldi 

Fimmta forgangsmálið er síðan bann við blóðmerahaldi og sölu á afurðum úr blóðinu. Í tilkynningunni segir að það megi vera ljóst að blóðmerahald brjóti gegn markmiðum laga um velferð dýra. Þrátt fyrir það hafi stjórnvöld ekki tryggt vernd fylfullra mera gegn því ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi. 

Flokkurinn leggur því áherslu á að löggjafinn grípi strax til aðgerða og banni með öllu blóðmerahald. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert