Einir umfangsmestu fólksflutningar síðari tíma

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um staðfestingu mats Útlendingastofnunar varðandi synjun á viðbótarvernd fyrir ríkisborgara Venesúela mun hafa áhrif á um 1.500 einstaklinga. Gætu þetta orðið á meðal umfangsmestu fólksflutninga síðari tíma á Íslandi. 

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sem kynnti niðurstöðu kærunefndarinnar á ríkisstjórnar- og síðar ráðherrafundi í Ráðherrabústaðnum í morgun. Búist er við því að niðurstaða kærunefndar sé fordæmisgefandi.

„Það má segja að kærunefnd sé að staðfesta breytta framkvæmd. Hún er sú að ríkisborgarar Venesúela sem hingað hafa komið og óskað eftir vernd þurfi ekki á þessari viðbótarvernd að halda,” segir Guðrún um niðurstöðuna.

Löng bið 

Tekist hefur verið á um málefni umsækjenda frá Venesúela um alþjóðlega vernd hérlendis um nokkurt skeið. Spurð hvort hún telji niðurstöðuna tímabæra segir Guðrún ljóst að lengi hafi verið beðið eftir niðurstöðu kærunefndarinnar hvað málefni Venesúelabúa varðar. „Ef þú horfir til annarra Evrópuríkja hafa þau ekki verið að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd. Þetta hafa verið fáar umsóknir samanborið við þann umsóknarfjölda sem hefur komið komið til Íslands,” svarar ráðherrann.

Yfir 200 dregið umsóknina til baka

Innt eftir því hvaða þýðingu þessi niðurstaða hefur segir Guðrún að endanleg synjun felur í sér brottför frá Íslandi og endurkomubann inn á Schengen-svæðið. Á þessu ári hafa yfir 200 ríkisborgarar frá Venesúela dregið umsókn sína til baka, bendir hún á. Flestir hafi vafalítið gert það af ótta við niðurstöðu um brottför og þar með endurkomubann inn á Schengen-svæðið.

Þorsteinn Gunnarsson, formaður kærunefndar útlendingamála, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar …
Þorsteinn Gunnarsson, formaður kærunefndar útlendingamála, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umtalsverðir fjárstyrkir 

Guðrún segir íslensk stjórnvöld þurfa að bregðast við niðurstöðu kærunefndar og aðstoða þann fjölda sem þarf að fara frá Íslandi til síns heima. Þeir sem vilja aðstoð við sjálfviljuga heimför fá umtalsverða aðstoð stjórnvalda en verkefnið verður flókið, bætir hún við. Bæði fær fólk aðstoð við að útvega sér farseðla, við að komast í örugga höfn og umtalsverða fjárstyrki sem hlaupa á hundruðum þúsunda króna.

Áhrif á um 1.500 manns

„Þetta verður verkefni okkar núna því við búumst við því að þessi niðurstaða kærunefndar sé fordæmisgefandi. Það eru 1.100 umsóknir sem liggja fyrir hjá Útlendingastofnun sem á eftir að afgreiða og um 400 umsóknir sem hafa verið kærðar til kærunefndar útlendingamála. Þarna erum við að tala kannski um 1.500 einstaklinga sem þessi niðurstaða hefur áhrif á,” greinir Guðrún frá.

Spurð hvort niðurstaða kærunefndar sé afturvirk segir hún það ekki vera til umræðu núna. Verið sé að bregðast við ákvörðun kærunefndarinnar frá því í gær. Það verkefni verði brýnt næstu vikurnar og reynt verði að afgreiða umsóknirnar eins hratt og vel sem eru í kerfinu og mögulegt er.

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

Hluti tengist barnafjölskyldum

Hún tekur fram að hluti af þessum 1.500 málum sem bíða afgreiðslu tengist barnafjölskyldum og að taka þurfi afstöðu til þeirra mála. Hvert og eitt mál hljóti sína efnismeðferð og að tekin verði afstaða til allra þeirra á einstaklingsbundnum grundvelli.

„Það eru dæmi í niðurstöðum um að einhverjum einstaklingum, það eru fá tilfelli, hafi verið veitt vernd af mannúðarsjónarmiðum en nú er matið slíkt að ástandið í landinu sé með þeim hætti að fólkið geti snúið til baka. En við erum að horfa til þess að þetta gætu orðið einir umfangsmestu fólksflutningar síðari tíma á Íslandi,” segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert