Þá hefðum við unnið þetta 3:0

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur.
Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum fínan fyrri hálfleik en svo tóku þeir yfir í seinni hálfleik og hittu úr öllu,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, eftir stórt tap fyrir Grindavík í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í kvöld.

Staðan var 41:40 í hálfleik en í þeim síðari kjöldrógu Grindvíkingar Keflvíkinga og unnu að lokum 112:63 stórsigur.

„Það var eiginlega sama hvað við gerðum, við náðum ekkert að halda í við þá,“ sagði Pétur í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður hvað hafi farið úrskeiðis hjá Keflavík í síðari hálfleik sagði hann:

„Það klikkar ekkert hjá okkur, það bara gekk allt upp hjá þeim og þá er þetta bara svona.

Ég er búinn að segja það áður að ef besti maðurinn hjá þeim hefði meiðst en ekki hjá okkur hefðum við unnið þetta 3:0. Þá hefði þetta aldrei farið í oddaleik.“

Var ekki nóg

Vísaði Pétur þar til Bandaríkjamannsins hæfileikaríka Remy Martin, sem meiddist í fyrsta leik einvígisins og munaði um minna.

Reyndist þetta ykkur um megn vegna fjarveru hans?

„Klárlega. Þegar við fáum á okkur svona boltapressu og ýmislegt annað eru Sigurður [Pétursson] og Halldór [Garðar Hermannsson] ekkert vanir því að spila þá stöðu í heilan leik.

Það er bara mjög erfitt fyrir þá og tekur mjög mikinn toll af þeim. Þeir eru vanir því að skjóta og klára eða fá sendinguna og ráðast á körfuna. Þeirra hlutverk breyttist verulega eftir að hann datt út.

Oddaleikur hér með hálfvængbrotið lið, mér finnst það vera alveg ágætt en það var ekki nóg. Við áttum tækifæri á því að vinna þetta á tímapunkti í fyrri hálfleik,“ útskýrði hann.

Í sjálfu sér ekki nógu gott

Keflavík fer nú í sumarfrí eftir að hafa staðið uppi sem bikarmeistari og komist í undanúrslit Íslandsmótsins.

„Að vera bikarmeistari er gott en við erum að stefna á tvo hluti í Keflavík og við náðum öðrum þeirra og hinum ekki. Í sjálfu sér er þetta ekki alveg nógu gott tímabil.

Staðallinn lækkar ekkert þó að einhverjir leikmenn detti út. Þá verðum við bara að vera með betra lið eða betri í að taka á móti einhvers konar áföllum.

Eins og staðan er núna er þetta tímabil að baki og framtíðin fyrir framan okkur. Við þurfum að koma betur undirbúnir fyrir næsta tímabil,“ sagði Pétur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka