Búist við miklum fjölda

Góð stemning var í höfuðstöðvum BSRB í gærkvöldi þar sem …
Góð stemning var í höfuðstöðvum BSRB í gærkvöldi þar sem undirbúningur fyrir baráttufundinn í dag fór fram og skilti voru útbúin. mbl.is/Hákon

Skipuleggjendur kvennaverkfalls segjast finna fyrir mikilli og góðri stemningu í samfélaginu. Búast má við því að fjöldi kvenna og kvára leggi niður launuð og ólaunuð störf í dag til þess að mótmæla kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi auk kerfisbundins vanmats á störfum kvenna.

Baráttufundur verður á Arnarhóli klukkan 14 og hafa rútuferðir verið skipulagðar þangað frá Selfossi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og víðar að. Einnig verður skipulögð dagskrá víða um land.

Þegar kallað er til kvennaverfalls er kallinu svarað

„Það gengur allt ótrúlega vel og við finnum fyrir mjög góðri stemningu og mjög góðum viðbrögðum, hvort sem það er fólk eða atvinnurekendur. Það virðist bara vera þannig að þegar kallað er til kvennaverkfalls er kallinu svarað,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og einn skipuleggjenda kvennaverkfallsins, í samtali við Morgunblaðið.

Sonja segist búast við að mikill fjöldi mæti á baráttufundinn á Arnarhóli. „Við erum búin að heyra af ótrúlega mörgum og fjölbreyttum vinnustöðum þar sem fólk ætlar að safnast saman, annaðhvort í heimahúsi eða annars staðar, og ganga saman fylktu liði,“ segir hún.

mbl.is/Hákon

Birta lista yfir fyrirtæki sem muni hamla þátttöku

Dæmi eru um að fyrirtæki hafi ákveðið að hamla þátttöku í kvennaverkfallinu og ætla skipuleggjendur að birta lista yfir þau. Sonja segir þó að heilt yfir séu viðbrögðin afar jákvæð.

„Stóra breiða myndin er sú að við finnum fyrir gríðarlega jákvæðum viðbrögðum hjá nær öllum hér á landi.“

mbl.is/Hákon

Kvennaverkfallið hefur mikil áhrif á samfélagið allt því skólastarf raskast og ýmis þjónusta verður ekki í boði. Allar sundlaugar í Reykjavík verða lokaðar utan laugarinnar á Kjalarnesi, bankar loka útibúum og söfn verða lokuð. Þá hefur ríkisstjórnarfundi verið frestað fram á miðvikudag.

Nánar er fjallað um málið í Morg­un­blaðinu í dag. 

mbl.is/Hákon
mbl.is/Hákon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert