„Komin nálægt því að fara í gos“

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði, segir að menn …
Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði, segir að menn eigi að hugsa rýmingaráætlanir í klukkustundum, ekki dögum, á þessum tímapunkti. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég er ansi hræddur um að við séum komin nálægt því að fara í gos,“ segir Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði, þegar blaðamaður leitar eftir áliti hans á jarðhræringum morgunsins á Reykjanesskaga.

Segir hann að menn eigi að hugsa í klukkustundum, frekar en dögum, bæði með tilliti til eldgoss og rýmingaráætlana. 

Nokkrir stórir skjálftar hafa orðið frá miðnætti. Rétt fyrir fimm í nótt reið 4,2 stiga skjálfti yfir og upp úr klukkan átta reið 4,3 stiga skjálfti yfir. Þá eru skjálftar yfir þremur að stærð fleiri en tíu. 

Kvikan komin á minna dýpi

„Mér sýnist kvikan vera búin að ná upp á minna dýpi. Hún dreifir sér frá 4-5 kílómetrum og nánast til yfirborðs,“ segir Þorvaldur. 

Hvað erum við að tala um, nokkra klukkutíma eða daga?

„Klukkutíma til daga. Ég held við séum komin ansi nálægt þessu. Landrisið heldur áfram eins og allir geta séð,“ segir Þorvaldur. 

Skjálftarnir sem orðið hafa í dag dreifa sér yfir þekkta gossprungu að sögn Þorvaldar. „Skjálftarnir virðast fylgja þessum norður-suður, eða rétt austan við norður, sprungum“ segir Þorvaldur. 

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæti hafist með miklum látum

Þorvaldur kveðst hafa miklar áhyggjur af því að eldgos myndi hefjast með látum á þessum stað vegna þess hvers eðlis kvikan er.

„Kvikan í sjálfu sér verður örugglega eitthvað aðeins þróaðri. Þetta er kvika sem hefur safnast fyrir á aðeins grynnra dýpi. Til að komast upp á grynnra dýpi þarf hún að vera eðlisléttari. Þannig það má búast við að hún verði ekki eins rík í magnesíum. Verði eins og við köllum þróaðri, það þýðir að hún verði með meiri kvikugösum í sér,“ útskýrir Þorvaldur.

Hann segir hugsanlegt að þá gætu myndast ansi öflugir kvikustrókar. „Ef það kemur til goss á þessum stöðum þarna þá er það frekar erfið staða og við getum búist við tiltölulegri hárri framleiðni í upphafi goss. Þá kannski myndi myndast svokallað kvikustrókahraun,“ segir Þorvaldur. 

Hann segir að í þannig gosi myndu gusurnar sem fara upp í kvikustrókinn lenda á jörðinni, renna saman í einn vökva og flæða í burtu. „Það getur flætt mjög hratt. Maður hefur mestu áhyggjurnar af byrjun gossins.“

Hvetur til þess að menn geri ráðstafanir

Hann segir ljóst að viðbragðstíminn sé ekki mjög langur. Vegalengdirnar séu stuttar þarna á milli, sama hvar myndi gjósa á því svæði sem skelfur núna. Hann segir vel tímabært að huga að rýmingaráætlunum á svæðinu. 

„Þetta er auðvitað bara ein sviðsmynd. En við getum fengið sviðsmynd sem gefur okkur mjög lítinn viðbragðstíma og ég hvet menn til þess að hafa það í huga og gera ráðstafanir miðað við það. Ekki hugsa þetta út frá dögum heldur hugsa þetta út frá klukkustundum,“ segir Þorvaldur. 

Hann segir vitað að kvikustrókahraun geti farið mjög hratt yfir, tugi kílómetra á klukkustund. „En ég er samt ekki að segja að það myndi gerast,“ bætir hann við. 

Horft yfir orkuverið í Svartsengi.
Horft yfir orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Hákon

Gaus upp um borholu í Kröflu

Spurður út í áhrif jarðhita á svæðinu segist Þorvaldur að hann hafi ekki mestar áhyggjur af því. Hann hugsi heldur fyrst um það sem geti ógnað öryggi fólks á svæðinu. 

„Ef við fáum gos þarna við jarðhitasvæðið í Svartsengi þá er líklegt að sú kvika sem kemur þar upp hafi einhver áhrif á jarðhitasvæðið. Mér skilst að HS Orka hafi ekki verið að sjá neinar breytingar á sínum borholum og það er góðs viti,“ segir Þorvaldur og rifjar svo upp Kröflueldana. 

„En þetta gerðist í Kröflu. Þá meira að segja gaus upp um borholu,“ segir hann. 

Hann segir meiri viðbragðstíma vera þegar kemur að því að meta áhrifin.

„Ef þú færð kvikuinnskot tiltölulega grunnt, eins og virðist vera að gerast þarna, þá tekur einhvern tíma fyrir hitann í þessari kviku að færa sig inn í jarðhitakerfið með jarðvarmaleiðni. En þegar það er komið af stað getur það aukið hitastigið í jarðhitakerfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert