„Því miður hefur niðurstöðunni ekki verið hlítt“

Sýslumaður hefur sent sér yfirlýsingu í kjölfar aðfarargerðar við heimili …
Sýslumaður hefur sent sér yfirlýsingu í kjölfar aðfarargerðar við heimili Eddu Bjarkar Arnardóttur. mbl.is/samsett

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við aðfarargerð sem framkvæmd var að heimili Eddu Bjarkar Arnardóttur í Grafarvogi á miðvikudag í síðustu viku. 

Í henni segir að sýslumaður hafi skilning á því að spurningar hafi vaknað hjá fólki í kjölfar eins viðkvæmrar aðgerðar og þarna fór fram sökum þess að börn eiga í hlut. 

Er á það bent að fyrir liggi dómar hérlendis og erlendis um að forsjá barnanna hafi verið veitt föður drengjanna. Hlutverk sýslumanns sé að framfylgja því, einnig þegar niðurstöðu dómstóla er ekki hlítt. 

„Því miður hefur niðurstöðunni ekki verið hlítt, þótt dómsmálinu milli foreldra sem báðir eru íslenskir ríkisborgarar, sé lokið. Því eru málin nú komin í þennan leiða farveg,“ segir í yfirlýsingunni. 

Lögmanni ekki meinað að vera viðstaddur

Þá er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið lagst gegn því að lögmaður Eddu Bjarkar Arnardóttur yrði viðstaddur líkt og sagt var frá í gerðarbók. 

„Viðvera hans var umsvifalaust viðurkennd þegar hann kynnti sig sem slíkur. Það mikilvæga hlutverk að gæta hagsmuna barnanna á vettvangi var hins vegar á herðum fulltrúa barnaverndar, líkt og gildandi lög kveða á um,“ segir í yfirlýsingu.

„Efst í huga allra sem koma að aðgerð sem þessari eru börnin sem eiga í hlut. Þess er ávallt gætt að haga framkvæmdinni þannig að hún valdi börnunum sem allra minnstu álagi. Á sama tíma er mikilvægt að utanaðkomandi stuðli ekki að erfiðum aðstæðum á vettvangi sem gera framkvæmd aðfarargerðarinnar enn erfiðari fyrir börnin en þegar er orðið,“ segir ennfremur í yfirlýsingu. 

Yfirlýsingin í heild sinni 

„Þann 25. október síðastliðinn fór fulltrúi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, ásamt lögreglu og fulltrúa barnaverndar, í svokallaða aðfarargerð á heimili í Grafarvogi. Um málið var talsvert fjallað í fjölmiðlum og kom þar m.a. fram gagnrýni á embættið. Sýslumaður hefur skilning á því að spurningar geti vaknað hjá fólki í kjölfar jafn viðkvæmrar aðgerðar og þarna fór fram enda áttu börn í hlut. Störf embættisins eru ekki hafin yfir gagnrýni en við viljum gjarnan koma á framfæri svörum við þeim spurningum sem velt hefur verið upp, eins og hvers vegna sýslumaður tók þátt í aðfarargerðinni og hvort ekki hefði verið hægt að framkvæma hana annars staðar.  

Ákvarðanir í forsjármálum eru teknar af dómstólum ekki sýslumönnum. En eitt af hlutverkum sýslumanns er að framfylgja niðurstöðu dómstóla í þeim tilvikum sem henni er ekki hlítt. Þegar aðilar neita að framfylgja niðurstöðu dómstóla, en í þessu tilfelli liggja fyrir dómar bæði héraðsdóms og Landsréttar, þá er sýslumaður kallaður til. Sýslumanni, sem fær beiðni um að framkvæma aðfarargerð, er skylt samkvæmt lögum að sinna henni og getur hann hvorki skorast undan þeirri skyldu né að öllu leyti valið stað fyrir framkvæmd hennar. Umrædd aðfarargerð var þannig framkvæmd á grundvelli lagaskyldu, í samræmi við gildandi lög og að beiðni  foreldris sem fer eitt með forsjá barnanna. Börnin voru ekki á lögheimili sínu, þar sem dómstólar hafa sagt að þau eigi að vera og í slíkum tilvikum verður sýslumaður að framkvæma aðför. Lögum þeim, sem dæmt er eftir í þeim tilfellum, er fyrst og fremst ætlað að tryggja hag barna en ekki foreldra. Niðurstaða dómstóla liggur fyrir um hvað sé börnunum fyrir bestu. Því miður hefur niðurstöðunni ekki verið hlítt, þótt dómsmálinu milli foreldra sem báðir eru íslenskir ríkisborgarar, sé lokið. Því eru málin nú komin í þennan leiða farveg.

Rétt er að taka fram að ekki var lagst gegn því af hálfu fulltrúa sýslumanns að lögmaður gerðarþola væri viðstaddur gerðina. Viðvera hans var umsvifalaust viðurkennd þegar hann kynnti sig sem slíkur. Það mikilvæga hlutverk að gæta hagsmuna barnanna á vettvangi var hins vegar á herðum fulltrúa barnaverndar, líkt og gildandi lög kveða á um. 

Efst í huga allra sem koma að aðgerð sem þessari eru börnin sem eiga í hlut. Þess er ávallt gætt að haga framkvæmdinni þannig að hún valdi börnunum sem allra minnstu álagi. Á sama tíma er mikilvægt að utanaðkomandi stuðli ekki að erfiðum aðstæðum á vettvangi sem gera framkvæmd aðfarargerðarinnar enn erfiðari fyrir börnin en þegar er orðið,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert