Enginn mun liggja óbættur

Stór sprunga liggur í gegnum Grindavíkurbæ vegna sigdals sem þar …
Stór sprunga liggur í gegnum Grindavíkurbæ vegna sigdals sem þar hefur myndast eða dýpkað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruhamfaratrygging Íslands, NTÍ, hefur lagt mat á verðmæti vátryggðra eigna í Grindavík. Samkvæmt því nemur verðmætið rúmlega 150 milljörðum króna. Hér er um að ræða eignir í Grindavíkurbæ, en hvorki orkuverið í Svartsengi né Bláa lónið eru þarna undir. Þetta segir Sigurður Kári Kristjánsson, formaður stjórnar Náttúruhamfaratrygginga Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Þarna er fyrst og fremst um að ræða húseignir, en allar slíkar eignir á Íslandi eru vátryggðar hjá NTÍ gegn beinu tjóni af völdum náttúruhamfara. Jafnframt er hægt að tryggja innbú og lausafé gegn náttúruhamförum með brunatryggingum hjá almennu vátryggingarfélögunum.

„Þetta á við um allar fullbúnar fasteignir á staðnum sem og þær sem eru í smíðum og hafa verið tryggðar. Hluti heildarfjárhæðarinnar tekur til innbús og annars vátryggðs lausafjár, hafnarmannvirkja, götulýsingar o.fl. Þunginn í þessu eru húseignirnar,“ segir Sigurður Kári og bætir því við að verði altjón myndi fyrrgreind fjárhæð, þ.e. ríflega 150 milljarðar, falla á NTÍ.

Myndarlegan sjóð

„Bótagreiðslur frá NTÍ eru fjármagnaðar með þrennum hætti. Í fyrsta lagi eigum við myndarlegan sjóð sem við ávöxtum. Í öðru lagi höfum við gert endurtryggingarsamninga erlendis. Sjóðurinn okkar, að viðbættu fé frá endurtryggjendum, getur staðið undir bótagreiðslum sem nema um 100 milljörðum króna. Ef á þarf að halda hefur stjórn NTÍ síðan heimild í lögum til lántöku með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs.Til hennar þarf samþykki fjármálaráðherra.

Ég hef fengið fullvissu fyrir því frá ráðherra að það samþykki verði veitt ef á þarf að halda. Fari allt á versta veg og eigið fé NTÍ og þeir fjármunir sem fást úr endurtryggingum dugi ekki til greiðslu bóta verður okkur heimilt að fjármagna mismuninn með lántöku. Sem betur fer er kerfið þannig uppbyggt og staða NTÍ það góð að við erum í færum til að bæta allt það tjón sem okkur ber að bæta, þ.e.a.s. að greiða bætur vegna vátryggðra eigna samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Hvernig sem allt fer í Grindavík mun enginn liggja óbættur hjá garði svo lengi sem hann er tryggður,“ segir Sigurður Kári.

Hús hafa orðið fyrir miklum skemmdum vegna jarðhræringanna.
Hús hafa orðið fyrir miklum skemmdum vegna jarðhræringanna. mbl.is/Eyþór

Hvött til að huga að tryggingum

Sigurður Kári bendir á að í aðdraganda atburðanna í Grindavík hafi bæði almenningur og fyrirtæki verið hvött til þess að huga að tryggingum sínum og uppfæra eftir þörfum.

„Grundvallaratriðið er að okkur Íslendingum hefur lánast að búa til kerfi sem tekur utan um fólk þegar svona áföll verða. Sjóður NTÍ er mjög vel fjármagnaður. Hann á miklar eignir og endurtryggingar NTÍ eru traustar. Þess vegna, og með bakstuðningi stjórnvalda, getur NTÍ staðið undir öllum sínum skuldbindingum gagnvart tjónþolum, lögum samkvæmt. Þeir sem eru vátryggðir geta verið vissir um að það tjón sem þeir verða fyrir verður bætt, samkvæmt lögum og reglum,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson.

Nálgast má umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert