Ráðherra getur ekki beitt sér í máli Eddu

Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir mbl.is/Óttar

Dómsmámálaráðuneytið hefur birt tilkynningu á vef Stjórnarráðsins þar sem fram kemur að dómsmálaráðuneytið hafi enga heimild til að beita sér í máli Eddu Bjarkar Arnardóttur. 

Þá er vísað til norrænnar handtökuskipunar sem byggir á samningum á milli norðurlandanna sem sem undirritaðar voru árið 2005. Áður en sá samningur var undirritaður giltu framsalssamningar á milli landa. 

Ráðherra hafi enga heimild

„Dómsmálaráðherra og ráðuneyti hafa enga aðkomu að meðferð þessara mála og hafa engar heimildir til að beita sér í þeim. Í því máli sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum hefur ríkissaksóknari tekið ákvörðun um að afhenda skuli viðkomandi til Noregs á grundvelli fyrrnefndra laga nr. 51/2016 og hefur sú ákvörðun verið staðfest bæði af Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti. Þessi ákvörðun byggir því á íslenskum lögum og niðurstöðu íslenskra dómstóla. Ríkissaksóknari og dómstólar á Íslandi eru sjálfstæðir í störfum sínum og taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum,“ segir í tilkynningu. 

Tilkynningin í heild sinni 

„Mál sem varða fjölskyldur og börn eru oftast með viðkvæmustu og erfiðustu málum sem stjórnvöld þurfa að fást við. Eru því gerðar ríkar kröfur til þess í lögum að með slík mál fari til þess bær stjórnvöld, sem starfa eftir skýrum lögum og reglum og með það að leiðarljósi að gæta allra viðeigandi hagsmuna í hverju máli fyrir sig. Vegna þess máls sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum er mikilvægt að árétta að þær ákvarðanir sem verið er að framfylgja hafa verið teknar af sjálfstæðum stjórnvöldum á grundvelli laga.“

Íslensk yfirvöld hafa getað framselt íslenska ríkisborgara til Norðurlandanna 

„Norræn handtökuskipun byggir á lögum nr. 51/2016 um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, en þau lög byggja á samningi milli Norðurlandanna sem undirritaður var þann 15. desember 2005. Áður en samningurinn um norrænu handtökuskipunina tók gildi voru í gildi lög nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Íslensk stjórnvöld hafa því síðan 1962 framselt íslenska ríkisborgara til Norðurlandanna.“

Gagnkvæm viðurkenning 

Með tilkomu samningsins um norrænu handtökuskipunina urðu þær breytingar á fyrirkomulagi framsals milli Íslands og Norðurlandanna, að komið var á fót einfaldara og skilvirkara fyrirkomulagi um afhendingu sakamanna. Fyrirkomulagið byggist á gagnkvæmri viðurkenningu á ákvörðunum dómsmálayfirvalda viðkomandi ríkja. Þá varð sú breyting á að ríkissaksóknara var falin öll málsmeðferð þessara mála og ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu. Þá ákvörðun er svo alltaf hægt að bera undir íslenska dómstóla. Ríkissaksóknari hefur jafnframt heimild til að fara fram á úrskurð dómstóla um þvingunarráðstafanir, þ.m.t. gæsluvarðhald, til að framfylgja ákvörðunum um afhendingu á grundvelli fyrrnefndra laga. Slíkir úrskurðir hafa ekki áhrif á framkvæmd ákvörðunar um afhendingu.“

„Dómsmálaráðherra og ráðuneyti hafa enga aðkomu að meðferð þessara mála og hafa engar heimildir til að beita sér í þeim. Í því máli sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum hefur ríkissaksóknari tekið ákvörðun um að afhenda skuli viðkomandi til Noregs á grundvelli fyrrnefndra laga nr. 51/2016 og hefur sú ákvörðun verið staðfest bæði af Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti. Þessi ákvörðun byggir því á íslenskum lögum og niðurstöðu íslenskra dómstóla. Ríkissaksóknari og dómstólar á Íslandi eru sjálfstæðir í störfum sínum og taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert