Flúði lögreglu í flýti en gerði samt typpamynd

Reifarakennd frásögn er í dómi héraðsdóms um gæsluvarðhaldsúrskurð.
Reifarakennd frásögn er í dómi héraðsdóms um gæsluvarðhaldsúrskurð. mbl.is/samsett mynd

Í niðurstöðu Landsréttar þar sem tekist var á um gæsluvarðhaldsúrskurð Eddu Bjarkar Arnardóttur kemur fram að Edda hafði einungis tilkynnt sig í sjö af fjórtán skiptum sem henni bar að gera það á lögreglustöð.

Bar henni að gera það í samkvæmt niðurstöðu dóms sem féll um að henni bæri að sæta norrænni handtökuskipan. Flytja átti hana til Noregs til að sitja réttarhald eftir að hún nam þrjá syni sína á brott frá föður drengjanna sem búsettur er í Noregi. Var það að lokum gert eftir að lögregla hafði lýst eftir Eddu og leitað að henni um nokkurt skeið.

Fram kemur að Edda hafi reglulega haldið sig fjarri lögreglu. Í dómnum segir að hún lagt sig fram um að flýja réttvísina og koma fram frásagnir af því í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms sem Landsréttur staðfesti. 

„Neyddist“ í rannsóknaraðgerðir 

Í gæsluvarðhaldsúrskurði kemur fram að sökum þess að henni hafi verið gert að sæta norrænni handtökuskipan og að hún hafði reynt sitt til að flýja réttvísina, að rétturinn taldi nauðsynlegt að halda henni þar til hún yrði flutt úr landi.

Þá segir að Edda hafi beitt öllum tiltækum ráðum til þess að komast undan lögreglu. Í úrskurði héraðsdóms kemur meðal annars fram að lögregla „neyddist“ til að framkvæma rannsóknaraðgerðir og afla dómsúrskurða til að hafa uppi á henni.

Nuddstilling enn í gangi 

Þá segir í einni af þremur húsleitum lögreglu þann 25. nóvember sl., á líklegum dvalarstöðum Eddu, hafi mátt sjá öryggismyndavélar, spor frá húsinu, ófrágenginn heitan pott með nuddstillingu enn í gangi, veski hennar á borði og ummerki sem báru það með sér að rokið hefði verið á brott í flýti.

„Þá voru þar einnig nýlega teiknaðar myndir af getnaðarlim í snjó sem lesin voru sem skilaboð til lögreglu,“ segir í úrskurði héraðsdóms um málið.

Þá segir að lögregla hafi þekkt til þess að fjöldi fólks hafi staðið að baki Eddu og aðstoðað hana við að torvelda störf lögreglu í tengslum við málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka