Sagt upp eftir ágreining við formanninn

Hjálmar Jónsson.
Hjálmar Jónsson. mbl.is/Hari

Hjálmari Jónssyni hefur verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands, BÍ, eftir ágreining á milli hans og formanns félagsins um stefnu félagsins.

„Allt gott tekur enda,” segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

Ekki var óskað eftir frekara vinnuframlagi hans á uppsagnarfrestinum og hverfur Hjálmar því frá störfum í dag.

Formaðurinn ekki starfi sínu vaxinn

Spurður segir Hjálmar að stjórn félagsins hafi ákveðið að segja honum upp eftir fyrrgreindan ágreining.

„Ég tel formanninn ekki starfi sínu vaxinn og ég tel heldur ekki að fólk sem hefur ekki hreinan skjöld í fjármálum og gefur ekki skýringar í þeim efnum eigi að vera í forsvari fyrir félag eins og Blaðamannafélag Íslands sem stendur fyrir gildi opinnar og lýðræðislegrar umræðu,” segir hann enn fremur.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdastjóri frá 2003

Hjálmar hefur starfað sem framvæmdastjóri BÍ frá árinu 2003 en hefur starfað fyrir félagið allt frá árinu 1989.

Hann var formaður til ársins 2021 þegar hann ákvað að stíga til hliðar. Í stað hans var kjörin Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem er núverandi formaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert