Gjörólíkur búnaður í vélum Icelandair

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. Ljósmynd/Icelandair

Búnaður til að festa hurðir í flugvélum Icelandair er allt öðruvísi en fyrirfinnst í vélum Alaska Airlines en hleri brotnaði af einni þeirra í háloftunum á dögunum.

Þetta segir Haukur Reynisson, flugrekstarstjóri Icelandair.

Í vél bandaríska flugfélagsins var um að ræða lokun á hurðargati sem er skrúfuð í en brotnaði síðan af. Í vélum Icelandir er aftur á móti venjuleg hurð fyrir neyðarútgang í gatinu, að sögn Hauks.

„Þannig að búnaðurinn sem festir hurðina hjá okkur í er gjörólíkur,” greinir Haukur frá og segir Icelandair hafa valið búnaðinn í sínar vélar með það í huga að ef flugfélagið vildi vera með fleiri en 200 sæti um borð væri mögulegt að nýta þennan neyðarútgang. Ekki hefur þó verið þörf á því þar sem sætin í vélunum eru 178 talsins.

Icelanda­ir rek­ur fjór­ar flug­vél­ar af sömu gerð og umrædd vél Alaska Airlines. Gerðin sem um ræðir er Boeing 737 Max 9. Vél­arn­ar Kirkju­fell, Lang­jök­ull, Hvítserk­ur og Baula, eru all­ar af þeim toga.

Flugvél Air Alaska á alþjóðaflugvellinum í bandarísku borginni Los Angeles …
Flugvél Air Alaska á alþjóðaflugvellinum í bandarísku borginni Los Angeles í morgun. AFP/Daniel Slim

Plötur settar í staðinn

Spurður nánar út í fyrirkomulagið varðandi hurðirnar segir Haukur hurðir vera staðsettar beggja megin á skrokki flugvélanna frá Boeing. Alaska Airlines er með 178 sæti um borð í sínum vélum og kýs að vera ekki með þessar hurðir og þess vegna eru hurðargötin, eða plötur, settar í plássið í staðinn. Engin breyting sést að innanverðu í vélunum en ef menn horfa á þær utan frá lítur út fyrir að þar séu hurðir.

„Kom mjög fljótt í ljós“

Beðinn um að fara yfir ferlið hjá Icelandair eftir að atvikið kom upp í vél Alaska Airlines segir Haukur að fyrstu viðbrögð hafi verið að ræða við Samgöngustofu og í kjölfarið Boeing og Flugeftirlitsstofnun Evrópu, EASA, til að fá upplýsingar um til hvers var ætlast af þeim og hvort munur væri á búnaði véla Icelandair og Alaska Airlines.

„Það kom mjög fljótt í ljós á laugardaginn að þetta var gjörólíkur búnaður hjá okkur sem krafðist ekki sömu viðbragða,” svarar Haukur.

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. Ljósmynd/Icelandair

Hurðirnar skoðaðar skömmu áður

Almennt segir hann allar vélar Icelandair skoðaðar af flugvirkjum og öðru starfsfólki á hverjum einasta degi, fyrir hverja einustu brottför og því verði vitaskuld haldið áfram.

Þar fyrir utan er farið í viðhaldsverkefni sem krefjast sérskoðunar á öllum þáttum flugvélanna. Verkefnin tengjast viðhaldsáætlun sem gefin er út af Boeing og EASA. Að sögn Hauks voru hurðirnar í vélum Icelandair skoðaðar sem hluti af þessari áætlun skömmu áður en atvikið varð í vél Alaska Airlines.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert