„Ég vona það besta“

Vilhjálmur gat lítið tjá sig við mbl.is um gang viðræðnanna …
Vilhjálmur gat lítið tjá sig við mbl.is um gang viðræðnanna við Samtök atvinnulífsins vegna fjölmiðlabannsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í morgun hefur Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sett á fjölmiðlabann í tengslum við kjaraviðræður breiðfylkingar stéttafélaga og Samtaka atvinnulífsins en samningsaðilar komu saman til fundar í Karphúsinu klukkan 10 í morgun.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, varð á vegi blaðamanns mbl.is fyrir fundinn í Karphúsinu í morgun. Aðspurður hvernig hann væri stemmdur fyrir fundinn sagði Vilhjálmur:

„Nú má eiginlega lítið segja því það er víst búið að koma á fjölmiðlabanni. En við göngum til fundar eins og alltaf með það að markmiði að ná samningum,“ sagði Vilhjálmur.

Spurður hvernig hafi gengið á fundinum í gær segir Vilhjálmur: „Við erum bara að byrja að tala saman aftur og að reyna að fikra þessu áfram. Ég mæti alltaf í þetta hús fullur bjartsýnar og svo verður framhaldið bara að koma í ljós. Ég vona það besta en í ljósi þessa fjölmiðlabanns get ég ekki sagt meira,“ segir Vilhjálmur.

Hann sagðist eiga von á að fundurinn stæði yfir eitthvað fram eftir degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert