„Þetta eru frábær tíðindi“

Yfir sex þúsund vörur í IKEA lækkuðu í verði í …
Yfir sex þúsund vörur í IKEA lækkuðu í verði í dag. mbl.is/Arnþór

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, fagnar ákvörðun IKEA sem hefur lækkað verð á yfir sex þúsund vörum frá og með deginum í dag.

„Þetta eru frábær tíðindi og það liggur alveg fyrir að þetta hjálpar okkur í þeim markmiðum sem við erum að vinna að, það er að ná niður verðbólgu og vöxtum,“ sagði Vilhjálmur við mbl.is rétt áður en hann gekk inn á fund í Karphúsinu en fundur í kjaradeilu breiðfylkingar stéttafélaga og Samtaka atvinnulífsins hófst klukkan 10.

„Það liggur líka fyrir að BYKO tilkynnti fyrir nokkru síðan að það hafi ákveðið að frysta vöruverð í sex mánuði,“ segir Vilhjálmur.

Bíður eftir fleiri fyrirtækjum

Hann segist bíða eftir að fleiri fyrirtæki stígi fram og geri slíkt hið sama en Vilhjálmur hefur talað fyrir því að fyrirtæki lækki vöruverð og að sveitarfélög og ríki dragi til baka gjaldskrárhækkanir og leggi þannig sitt af mörkum til að koma á þjóðarsátt.

Í tilkynningu frá IKEA segir meðal annars:

Yfir sex þúsund vörur í IKEA lækka í verði 1. febrúar og er lækkunin framhald á þróun sem hófst fyrir áramótin. Verðlækkanirnar eru kynntar í verslun og á vef sem nýtt lægra verð, enda er verðlækkunin ekki tímabundið tilboð. Hugmyndafræði IKEA er að gera daglegt líf þægilegra fyrir sem flesta og lágt verð alla daga er mikilvægur þáttur í því.“ 

„Nýlegir samningar við birgja um lægra innkaupsverð gera okkur nú kleift að lækka verð. Á sama tíma tökum við ákvörðun um að festa verð til ársloka og gilda þessar breytingar nú frá 1. febrúar,“ segir Stefán Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert