„Við bíðum bara eftir að komast að samningaborðinu“

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar LÍV bíður þess að komast í …
Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar LÍV bíður þess að komast í Karphúsið að nýju með Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Samsett mynd

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands íslenskra verzlunarmanna (LÍV), segir VR og LÍV bíða þess að komast aftur að í Karphúsinu til að hefja samtal við Samtök atvinnulífsins. Hann segir félögin fullfær um að gera sinn eigin kjarasamning og lítur því ekki svo á að fara þurfi að samningaborðinu með öðrum samninganefndum. VR og LÍV munu í dag halda rýnifund og fara yfir stöðuna.

„Öll rými ríkissáttasemjara eru fullbókuð þannig að við erum að bíða færis. [....] Við vorum ekkert að segja skilið við það að gera kjarasamning þegar við fórum út úr breiðfylkingunni, við bara fórum út úr því samstarfi.“ 

VR og LÍV slitu sig frá breiðfylkingu stéttarfélaga í samningaviðræðum við SA á föstudaginn en Starfsgreinasambandið, Efling og flest aðildarfélög Samiðnar héldu áfram kjaraviðræðum við SA. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði ástæðu þess að félögin gengu frá samningaborðinu þá að forsenduákvæðin hafi ekki gengið nógu langt. 

Fullfær um að gera eigin kjarasamning

Á meðan samninganefndir VR og LÍV bíða þess að geta hafið samtal við SA á ný segir Eiður að unnið sé að því að fara yfir alla þá þætti sem ekki höfðu verið ræddir við samningaborðið til þessa. Hefur til að mynda verið boðað til sameiginlegs rýnifundar VR og LÍV í dag þar sem farið verður yfir stöðuna og metið hvar félögin voru stödd þegar leiðir þeirra skildu við breiðfylkinguna. 

Inntur eftir því hvort útlit sé fyrir að félögin fari að samningaborðinu með öðrum félögum, til dæmis fagfélögunum, kveðst Eiður ekki líta svo á. 

„Við erum fullfær um að gera okkar eigin kjarasamning og förum bara í það verkefni. Ég vona bara að þetta gangi hratt fyrir sig niðri Karphúsi núna og að þeim takist vel til,“ segir hann og bætir við: „Við bíðum bara eftir að komast að samningaborðinu.“

Spurður hvort hann hafi verið sammála Ragnari um að ganga úr breiðfylkingunni svarar Eiður því játandi og segir að það hafi ríkt samstaða meðal þeirra um að standa saman í viðræðunum. 

Ljóst að svigrúmið minnkar 

Hvernig horfir það við þér að það sé búið að semja á öðrum vígstöðum, það hlýtur að þrengja stöðu ykkar að einhverju leyti?

„Já það er alveg ljóst. Svigrúmið minnkar menn fara ekkert langt frá þeim samningum sem nú er verið að gera inni í Karphúsi. Menn vissu það að þeir sem semja fyrst búa til ákveðið viðmið sem að erfitt verður fyrir aðra, alveg sama hvort að það eru við eða aðrir, að fara út úr.“

Samt hafið þið þarna eitthvað svigrúm sem þið teljið ykkur þurfa?

„Já, við þurfum að reyna að koma hlutunum í þann farveg sem við teljum að sé boðlegur fyrir félagsfólk okkar. Það breystist margt í Karphúsinu með hverjum klukkutímanum sem viðræðurnar halda áfram,“ segir Eiður og útskýrir að það sé ekki útilokað að VR og LÍV geti fallist á álíka kjarasamninga og nú er unnið að í Karphúsinu.  

„Það er ekkert útilokað með það og mjög líklegt að við gerum það. Það er allt galopið í þessu.“

En hvers vegna velur maður þá að fara frá samningaborðinu ef maður gengur síðan bara að sama pakka?

„Það er tilraunin til þess að pressa á að það sé hlustað og að menn taki tillit til þess þegar svona stórt félag eins og VR á í hlut, sem er með hátt í 40 þús félagsmenn, að gerðar verði varnir fyrir félagsfólkið þannig að þær haldi í svona löngum samningi,“ segir Eiður og bætir við:

„Það var vonin í þessu að við getum ýtt þessu eitthvað lengra. Við skulum sjá hver raunin verður þegar skrifað verður undir kjarasamning, hvar það endar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert