Eyjólfur tilkynnir ákvörðun fyrir páska

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Eyj­ólf­ur Guðmunds­son, frá­far­andi rektor við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, tilkynnir fyrir páska hvort hann ætli gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hann hefur síðustu vikur fundað með stuðningsfólki sínu og ýmsum sérfræðingum.

„Þetta er stór ákvörðun og mikil en ákvörðun verður tekin fyrir páska. Ég er kominn mjög nálægt því að geta tekið ákvörðun,“ segir Eyjólfur í samtali við mbl.is.

Eyjólfur bætir við að framboð hafi ekki verið á áætlun hans í upphafi árs. Hann hafi verið með aðrar áætlanir að loknu starfi sem rektor HA. Nú sé hann að vega og meta kosti og galla þess að fara í framboð.

Þurfi að endurhugsa forsetaembættið

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Eyjólfi í gær var hann að klára fund með stuðningsmönnum sínum fyrir norðan. Hann hefur einnig fundað með fólki fyrir sunnan og rætt við ýmsa sérfræðinga um stöðu mála. Segist Eyjólfur vera kominn með spennandi málefnagrunn.

„Það sem ég hef verið að gera er að prufa ákveðna aðferðarfræði við að eiga samtal um forsetaembættið, hún hefur gengið vel upp. Ef ég fer í framboð þá verður mitt fyrsta verk að nota það fundarform og funda með fólki víða um land. Það skiptir mig miklu máli að eiga samtal við fólkið í landinu um forsetaembættið. Ég held að við þurfum að endurhugsa hvernig við hugsum um forseta.“

Hvað áttu við með því að endurhugsa þurfi forsetaembættið?

„Forsetaembættið er mikilvægast embætti okkar Íslendinga og það er vörður fyrir lýðræðið. Forsetaembættið er vörður lýðræðis út frá stjórnarskrá hverju sinni. Það hlutverk hefur verið vanmetið í mínum huga. Við þurfum að eiga samtal um hvað það þýðir að vera vörður fyrir lýðræðið, á tímum þar sem ég held að lýðræðinu sé ógnað.“

Eyjólfur hefur nú í nokkurn tíma verið að íhuga framboð …
Eyjólfur hefur nú í nokkurn tíma verið að íhuga framboð til forseta. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslensku lýðræði ekki ógnað

Spurður hvort hann telji íslensku lýðræði ógnað svarar Eyjólfur því neitandi.

„Ég myndi kannski ekki segja að íslensku lýðræði í sjálfu sér sé ógnað, heldur er hugmyndinni um lýðræði í heiminum ógnað. Við þurfum sjálf að vera með á hreinu hvernig við lítum á og metum okkar eigið lýðræði, og eiga samtal um það.

Lýðræðinu fylgir frelsi, og frelsinu fylgir meðal annars málfrelsi. Við verðum að geta tekist á um málefni án þess að við förum ofan í þær vondu skotgrafir sem við sjáum lýðræði heimsins vera að þróast í, bæði vestanhafs og austanhafs. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir íslenskt samfélag, að við náum að eiga samtal um erfið mál án þess að fara í slíkar skotgrafir. Þannig að sem vörður lýðræðis þá hefur forsetaembættið líka ákveðnar skyldur til að hjálpa samfélaginu að eiga gott og betra samtal.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert