Heimila ekki löndun sökum hættu og óvissu

Frá Grindavíkurhöfn.
Frá Grindavíkurhöfn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í morgun stóð til að landa úr skipum í Grindvíkurhöfn en það var ákvörðun viðbragðsaðila að heimila það ekki m.a. vegna mengunarhættu og óvissu með framgang hraunrennslis fyrir ofan Suðurstrandarveg. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Hann segir enn fremur, að hrauntjörn hafi myndast skammt frá enda hraunjaðarsins ofan við Suðurstrandarveg. Er viðbragðsaðilum sem öðrum haldið frá hraunjaðrinum á meðan hætta er talin á að hraun geti flætt þar fram á miklum hraða.  

Enn er hætta á að hraun renni yfir Suðurstrandarveg, segir jafnframt í tilkynningunni. 

Eins og fram hefur komið, þá er mikil brennisteinsmengun á svæðinu.  

Þá er hluti Grindavíkurvegar undir hrauni og sú flóttaleið úr sögunni í einhverja daga að sögn lögreglustjórans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert