Virkni í syðsta gígnum – Hraunið hreyfist lítið

Eldgosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina í gærkvöldi er það sjöunda …
Eldgosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina í gærkvöldi er það sjöunda á tæpum þremur árum. mbl.is/Árni Sæberg

Virknin í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina virðist vera svipuð og í gærkvöldi en gígveggirnir eru búnir að stækka, líkt og gerðist í eldgosunum í Geldingadal og Fagradalsfjalli. Virkni er í  syðsta gígnum en enginn virkni er sjáanleg norður af honum. Gossprungan er um þriggja kílómetra löng.   

Þetta segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Flogið var yfir svæðið með dróna um klukkan 21 til 22 í gærkvöldi og hafði þá engin hreyfing verið á hrauninu sem rennur í vestur í átt að Njarðvíkuræðinni. Hafði hraunið lítið breyst frá því í gærmorgun. Í gærkvöldi virtist hrauntungan hafa stoppað í um 180 m fjarlægð frá Njarðvíkuræðinni.

Hrauntungan sem rennur í suður var um 350 til 450 metra frá Suðurstrandarvegi. Hreyfingin þá var mjög lítil og segist Bjarki efast um að hraunið hafi hreyfst mikið síðan um níuleytið í gærkvöldi.

Engin skjálftavirkni er í kvikuganginum, sem er algengt þegar eldgos hefur farið af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert