Zuista-bræður sakfelldir í Landsrétti

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson (t.v.) og Einar Ágústsson hafa verið …
Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson (t.v.) og Einar Ágústsson hafa verið fundnir sekir um fjársvik og peningaþvætti í tengslum við starfsemi félagsins Zuism trúfélag Samsett mynd

Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli bræðranna Ágústs Arnars og Einars Ágústssona í máli sem tengist rekstri trúfélagsins Zuism og dæmdi þá seka af ásökunum um fjársvik og peningaþvætti. Hlaut Einar 18 mánaða dóm og Ágúst tveggja ára dóm.

Auk þess voru tug milljóna eignir félaga sem þeir tengjast gerðar upptækar og samtals þurfa þeir að greiða um 30 milljónir í sakarkostnað.

Þetta er ekki eini dómurinn sem Einar hefur hlotið, því fyrr á þessu ári hafnaði Hæstiréttur áfrýjunarleyfi í fjársvikamáli gegn honum, en Einar hafði hlotið þriggja ára dóm í Landsrétti og stendur sá dómur því.

Ákærðir fyrir að svíkja út 85 milljónir

Bræðurn­ir tveir voru ákærðir fyr­ir að lát­ast reka trú­fé­lag sem upp­fyllti skil­yrði laga um slík fé­lög og svíkja þannig ríf­lega 85 millj­ón­ir króna út úr rík­inu í formi sókn­ar­gjalda. Sömu­leiðis voru þeir ákærðir fyr­ir pen­ingaþvætti á fjár­mun­un­um.

Í mál­inu var sjálft trú­fé­lagið Zuism, einka­hluta­fé­lagið EAF sem Ein­ar er í for­svari fyr­ir og banda­ríska skúffu­fé­lagið Threescore LLC í Delaware einnig ákært. Milli­færðu bræðurn­ir m.a. stór­an hluta fjár­muna Zuism á fé­lagið EAF sem þeir létu Zuism síðar kaupa af öðru fé­lagi Ein­ars.

Persónuleg neysla fjármögnuð með sóknargjöldum

Ákæru­valdið taldi að Ágúst Arn­ar hafi fjár­magnað per­sónu­lega neyslu sína með sókn­ar­gjöld­um sem Zuism fékk frá rík­inu. Í ákæru kom fram að bræðurn­ir hafi m.a. eytt millj­ón­um króna af sókn­ar­gjöld­un­um í mat, áfengi og ferðalög.

Við aðalmeðferð máls­ins fyrir héraðsdómi gat Ágúst litlu svarað um ráðstöf­un fjár­mun­anna. Hins veg­ar hélt Ein­ar bróðir hans því fram að hann væri trúaður á kenni­setn­ing­ar forns­núm­era og að hann sæi fyr­ir sér að reka trú­fé­lagið áfram í framtíðinni, fengi það leyfi til þess.

Blekktu stjórnvöld

Í dómi Landsréttar kemur fram að dómurinn tali sannað að Ágúst og Einar hafi á árunum 2017 til 2019 blekkt stjórnvöld að því er varðar starfsemi trúfélagsins. Þeir hefðu haft fulla vitneskju um það að þeir meðlimir sem komu inn í trúfélagið í árslok 2015, þ.e. þegar félögum fjölgaði úr fimm upp í tæplega 3.000, hefðu komið þangað á öðrum forsendum en lágu til grundvallar skráningu trúfélagsins og því ekki verið unnt að telja þá sem meðlimi í trúfélaginu í skilningi laga.

„Í stað þess að gera sýslumanni og Fjársýslunni grein fyrir stöðunni sem uppi var, í samræmi við þær ríku trúnaðarskyldur sem hvíldu á Á [Ágústi] sem forstöðumanni trúfélags, styrktu ákærðu og hagnýttu sér þá röngu hugmynd stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti skilyrði  skráningar,  sem  leiddi  til þess  að  félagið  fékk  greiddar  í  sóknargjöld 84.727.320  krónur,  sem  það  átti  samkvæmt  lögum  ekki  tilkall til,“ segir í dóminum.

Eru þeir fundnir sekir um að hafa nýtt hluta fjármunanna til eigin nota, en að stærstum hluta hafi þeir fært upphæðir af reikningi trúfélagsins yfir á reikning Threescore LLC. Með því hafi þeir valdið íslenska ríkinu fjártjóni. 

Er því slegið föstu í dóminum að þeir hefðu staðið saman að þessum brotum og voru þeir því sakfelldir fyrir fjársvik. Jafnframt voru þeir sakfelldir fyrir peningaþvætti með að hafa ráðstafað hinum ólögmætu fjármunum.

Eignir upp á tugi milljóna gerðar upptækar

Samþykkt var upptaka á fjármunum og eignum í eigu þriggja félaga.

Fyrst er um að ræða 1,3 milljónir á reikningum félagsins Zuism.

Í öðru lagi var um að ræða eignir félagsins EAF, en gerð voru upptæk hlutabréf í ónefndu félagi, um 564 þúsund krónur og 271.400 dalir á reikningi félagsins í London, en síðast nefnda upphæðin nemur tæplega 38 milljónum króna.

Í þriðja lagi voru eignir félagsins Threescore LLC gerðar upptækar, en um var að ræða eignir félagsins hjá bandarísku verðbréfafyrirtæki. Námu eignirnar í september 2020 samtals 75.400 dölum, eða um 11 milljónum króna.

30 milljónir í sakarkostnað

Þá var báðum bræðrum gert að greiða um 15,5 milljónir á mann í sakarkostnað í hérað, áfrýjunarkostnað og málsvarnarlaun fyrir Landsrétti

Dómur Landsréttar.

Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum eftir að dómur Landsréttar var birtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert