Ekki búið að ákveða hvenær Bláa lónið opnar á ný

Bláa lónið hefur verið lokað síðan eld­gos hófst við Sund­hnúkagígaröðina …
Bláa lónið hefur verið lokað síðan eld­gos hófst við Sund­hnúkagígaröðina þann 16. mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bláa lónið er lokað yfir páskana og ekki er búið að ákveða hvenær opnað verður á ný. Helga Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri sölu-, þjón­ustu- og rekstr­ar­sviðs fyr­ir­tæk­is­ins, segir að ákvörðunin hafi verið tekin í samstarfi við yfirvöld. 

„Við erum að eiga við nýja áskorun sem er gasmengunin. Við erum að vinna í að uppfæra áhættumat og annað með tilliti til þess,“ segir Helga.

Nýta tímann til að meta stöðuna

Þá bætir hún við að stjórnendur fyrirtækisins ætli að nýta tímann vel til þess að skilja stöðuna og læra á hana. 

Búið er að fjölga gasmælum og fékk fyrirtækið Veðurstofuna til að setja upp mæli á svæðinu svo auðveldara væri að meta stöðuna og skilja hvernig gasið flæðir um. 

Vart forsvaranlegt að hafa lónið opið

Úlfar Lúðvíksson lög­reglu­stjóri á Suður­nesj­um sagði fyrir tæplega viku síðan að það væri vart forsvaranlegt að opna Bláa lónið á meðan eld­gos er enn í gangi og vindátt breytileg.

Helga segir forsvarsmenn fyrirtækisins sammála því.

„Við erum að reyna að ná betur utan um þessa nýju áskorun og ætlum ekki að opna fyrr en við erum búin að því.“

Eru að taka eitt skref í einu

Ekki er búið að ákveða hvenær lónið hefur starfsemi á ný en í tilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins segir að starfsstöðvar verði lokaðar út mánudaginn 1. apríl. Helga segir að nú sé verið að taka eitt skref í einu. 

„Við ákváðum að gefa okkur góðan tíma núna. Við sjáum svo hvernig gosið þróast og hvernig við verðum þá búin að ná utan um stöðuna,“ segir hún spurð um næstu skref.

Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekstr­ar og þjón­ustu Bláa lóns­ins.
Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekstr­ar og þjón­ustu Bláa lóns­ins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert