Stórstjörnur skipta ekki jafn miklu máli og áður

SIgurjón Sighvatsson, formaður Kvikmyndaráðs og kvik­mynda­fram­leiðandi.
SIgurjón Sighvatsson, formaður Kvikmyndaráðs og kvik­mynda­fram­leiðandi. mbl.is/Ásdís

Síðasta ár var líklega blómlegasta ár íslenskrar kvikmyndagerðar. Kvikmyndaaðsókn á íslenskar bíómyndir náði sem dæmi hæstu hæðum en yfir 15% allra þeirra sem sóttu íslensk bíóhús heim gerðu það til að líta íslenskar bíómyndir augum. 

„Það hefur aldrei áður gerst á Íslandi og einungis gerst í örfáum löndum,“ segir Sigurjón Sighvatsson, formaður Kvikmyndaráðs og kvik­mynda­fram­leiðandi, í samtali við mbl.is, en Sigurjón flutti erindið „Hvernig hefur bransinn breyst? Frá 0 upp í 100 á hálfri öld“ á kvikmyndaráðstefnu í Hörpu á föstudaginn.

Um er að ræða ráðstefnu um efna­hags­legt mik­il­vægi og framtíð kvik­mynda­gerðar á Íslandi sem Menningar- og viðskiptaráðuneytið stóð fyrir í samvinnu við Íslands­stofu og Kvik­mynda­miðstöð Íslands.

Íslenskt kvikmyndagerðarfólk flinkt og fært 

Eins og yfirskrift erindis Sigurjóns gefur til kynna þá fjallar það um þær breytingar sem orðið hafa innan kvikmyndabransans á síðustu fimmtíu árum. Er þar ekki einungis verið að horfa til íslenska kvikmyndabransans heldur kvikmyndabransans í heild sinni. 

Það er þó alltaf fróðlegt að horfa til þess sem vel er gert hér á landi og því byrjar blaðamaður á því að spyrja Sigurjón hvort stuðningur íslenskra stjórnvalda til kvikmyndagerðar hafi eitthvað að gera með blómlegan árangur í íslenskri kvikmyndagerð á síðasta ári. 

Já, já, það var bætt töluvert í. Það var aukið töluvert í sjóði og svo kom sérstakt covid framlag, en það er kannski ekki síst vegna þess að Íslanskt kvikmyndagerðarfólk – og ég er ekki bara að tala um bíó, ég er að tala um heimildakvikmyndagerð, ég er að tala um sjónvarp – að það er líka flinkt og fært,“ segir Sigurjón og bætir við: 

„En um leið hafa tækniframfarir hjálpað okkur til að keppa við risana. Við þurfum ekki lengur stór og dýr tæki til að gera frambærilegar myndir. Við eigum sterkar sögu þegar kemur að leikurum og leiklist þannig að við njótum góðs af þeim ótrúlegu tækniframförum sem hafa farið fram.“

Nýjar íslenskar kvikmyndir ólíkar og fjölbreyttar

Meðal þess sem Sigurjón segir hafa tekið miklum breytingum á síðustu árum er kostnaður við gerð og framleiðslu kvikmynda. Hann nefnir sem dæmi að þær íslensku bíómyndir sem sýndar voru í bíó á síðasta ári hafi allar verið fremur ódýrar. 

„Samt sem áður var næst vinsælasta og fimmta vinsælasta mynd ársins í fyrra, í íslenskum bíóhúsum, íslensk. Bíómyndir sem voru gerðar fyrir einn hundraðasta af því sem Barbie og Oppenheimer kostuðu,“ segir Sigurjón en um er að ræða kvikmyndirnar Villibráð og Kuldi. 

Sigurjón segir tæknina eiga stærstan þátt í þessari velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar, auk þess sem hann segir íslenska kvikmyndagerðarmenn hafa lært að sníða sér stakk eftir vexti.

„Því allar myndirnar sem komu í fyrra voru ólíkar og fjölbreyttar en höfðuðu greinilega meira en nokkru sinni áður til stærri hóps.“

Ekki nóg að kvikmynd sé íslensk 

Heldur þú að þessi aðsókn hafi eitthvað að gera með sérstakan áhuga Íslendinga á því að styðja samlanda sína?

„Það var í byrjun en það hefur breyst held ég. Í byrjun voru myndirnar frekar gerðar af vanefnum en fólk var þyrst í að sjá Íslendinga og heyra íslensku talaða á, við köllum það hvíta tjaldinu, en í dag held ég að það sé ekkert sérstaklega að stökkva á íslenskar myndir nema að það hafi áhuga á myndinni sem slíkri,“ svarar Sigurjón og bætir við:

„Við erum búin að sjá nóg af íslenskum myndum til þess að það eitt að kvikmynd, sjónvarpsmynd eða heimildarmynd, sé íslensk, sé nóg til að fá fólk í bíó eða til þess að horfa.“

Þetta eru að sögn Sigurjóns stærstu breytingarnar hér á landi. Myndirnar sem áður voru gerðar af vanefni eru nú margar barns síns tíma segir hann og útskýrir að þegar þær voru í hámæli þá hafi það verið vegna meðbyrs Íslendinga með greininni, vegna þess að Íslendingar voru að hans sögn orðnir svo þreyttir á amerískum bíómyndum. 

„Sem var kannski 95% af því sem sýnt var,“ segir hann kíminn. 

„Mikilvægara en nokkurn tímann fyrr“

Hvers vegna skiptir máli að vera með góða kvikmyndagerð hér á landi. Hvaða máli skiptir það fyrir íslensku þjóðina?

„Þurfum við ekki að vernda sögu lands og þjóðar, okkar menningu? Tala nú ekki um núna þegar myndmál er í raun búið að yfirtaka ritmálið. Er ekki helmingur af öllum drengjum undir fimmtán ára ólæsir og einn þriðji af stúlkum?“ segir Sigurjón og heldur áfram: 

„Þetta er enn þá mikilvægara en nokkurn tímann fyrr. Ef við ætlum að geta haldið uppi okkar sérkennum og sögu lands og þjóðar þá verðum við auðvitað að geta búið til myndefni af öllum tegundum á okkar eigin tungumáli, úr okkar eigin sögu, þjóðfélagi og upplifunarheimi.“

Skiptir litlu hvort stórleikarar fari með hlutverk 

Að sögn Sigurjóns er landslagið í kvikmyndaheiminum mun fjölbreyttara í dag en það var hér áður fyrr og segir hann þær breytingar til að mynda hafa orðið til þess að Hollywood á undir högg að sækja. 

„Núna á Óskarnum síðasta voru sigurvegararnir í rauninni ekki amerískar kvikmyndir heldur fyrst og fremst ódýrar evrópskar kvikmyndir sem að ekki voru hlaðnar stjörnum og kostuðu einn tíunda sem af því sem til dæmis Barbie kostaði.“

Hvers vegna heldur þú að það sé?

„Það er tvennt eða þrennt. Það er annars vegar að það er komin þreyta í þessa stóru maskínu sem að Hollywood er, orðið mikið um endurtekningar, og það eru komnir margir aðrir vettvangar fyrir fólk til að sjá efni,“ segir Sigurjón og tekur TikTok sem dæmi. 

„Það eitt að gera mynd sem er stór og dýr, þar sem má segja að umgjörðin sé meira spennandi en innihaldið, það eiginlega virkar ekki lengur. Þetta verður að haldast í hendur.“

Til viðbótar segir Sigurjón að með tilkomu streymisveitnanna hafi stjörnukerfið hrunið. Nú skipti litlu hvort stórleikarar fari með hlutverk í kvikmynd eða ekki því almenningur er hvort sem er alltaf að sjá „þetta fólk,“ segir Sigurjón. 

„Áður fyrr var það þannig að ef þú hafðir stjörnu í mynd þá gast þú tryggt þér ákveðna forsölu og vissu um það að ákveðinn fjöldi fólks myndi koma og hagaðir fjárfestingunni eftir því. Þetta er allt saman mjög breytt og við erum að njóta góðs af því.“

Sagan sterkari en allt annað 

Spurður hvort þær tækniframfarir sem orðið hafa á undanförnum árum, og hraðinn sem þeim fylgir, hafi áhrif á gæði og innihald þess efnis sem nú er framleitt, svarar Sigurjón að það sé ekki endilega svo. Því fleiri sem komi að því að gerð efnisins, því fleiri góðar hugmyndir verða til. 

„Þannig að það má segja að það sem hefur gerst er að maður sér gott efni koma alls staðar að. Jafnvel frá fólki sem hefur ekki lært eða hefur tækniaðstöðu til að vinna eins og þeir sem hafa bestu aðstöðu í heimi. Þess vegna segi ég það er ekki nóg að hafa peningana eins og Hollywood, þú verður að hafa hugmyndina.“ 

Að mati Sigurjóns er sagan þannig sterkari en allt annað. „Sagan sem þú segir og hvernig notar þú þann miðil sem þú ert að vinna með til að koma henni frá þér.“

Megum ekki glutra góðu gengi 

Öll þessi þróun sem orðið hefur er Íslendingum í hag að sögn Sigurjóns. „Þess vegna segi ég síðasta ár hafi verið besta ár sem við höfum haft og við megum ekki glutra því.“

Talið berst að endurgreiðslum frá íslenska ríkinu á kostnaði við kvikmyndagerð hér á landi. Sigurjón segir þessar endurgreiðslur nauðsynlegar en undirstrikar mikilvægi þess að fjármagninu sé ekki öllu dælt til útlendinga. 

„Við þurfum að koma jafnvægi á það eins og aðrar þjóðir hafa gert. Til að mynda með því að skattleggja streymisveiturnar,“ og nefnir sem dæmi fjársvelta íslenska fjölmiðla sem kvarta undan því að þeir séu að missa tekjur. 

„Sem er alveg rétt, en við erum að missa mest af þeim til útlendinganna,“ segir Sigurjón sem vill að horft verði til annara þjóða og þak sett á endurgreiðslur til erlendrar kvikmyndagerðar hér á landi. 

„Endurgreiðslan er forsendan fyrir því að við getum haldið uppi greininni, en við þurfum að passa upp á jafnvægið milli innlendrar framleiðslu og erlendrar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert