„Hefði verið óskynsamlegt“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástæða þess að þingfundi var slitið snemma síðdegis er sú að það var mat þingforseta að það væri skynsamlegt í ljósi aðstæðna. „Það eru í gangi viðræður á milli stjórnarflokkanna akkúrat í augnablikinu sem hafa kannski ekki ennþá leitt til neinnar niðurstöðu.“

Þetta segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is. Fyrsti þingfundur eftir páskafrí hófst kl. 15 í dag, en fyrsta mál á dagskrá var óundirbúinn fyrirspurnartími. Fundinum var hins vegar slitið eftir aðeins fimm mínútur. 

„Ég held að það hefði verið óskynsamlegt í ljósi aðstæðna að fara í venjulegan þingfund miðað við það.“

Margir á öðrum fundum

Birgir bendir á að stjórnarandstaðan hefði komið fram með athugasemdir. „Við auðvitað hlustum á þær, en það var auðvitað líka um það að ræða að margir af þeim sem hefðu haft eitthvað hlutverk í umræðunni í dag eru á öðrum fundum eins og sakir standa,“ segir Birgir. 

Aðspurður um framhaldið segir Birgir ráðherrar í starfsstjórn hafi í grundvallaratriðum sömu réttindi og skyldur og aðrir ráðherrar og geti því sinnt ákveðnum verkefnum á meðan þeir sitja í starfsstjórninni. „Það er ekki eins og það sé allt stopp á meðan.“

„Hins vegar þá mátum við það þannig í dag að það væri eðlilegra að sjá aðeins hvernig þessum umræðum stjórnarflokkanna myndi vinda fram áður en við tækjum einhver skref í þessa veru,“ segir Birgir. 

Fundar með þingflokksformönnum varðandi framhaldið í fyrramálið

Aðspurður gerir Brigir ráð fyrir því að hann muni eiga samtöl með formönnum þingflokka í síðasta lagi í fyrramálið. Þar verði m.a. farið yfir dagskrá þingfundarins á morgun. 

Þá segir Birgir aðspurður að formenn stjórnarflokkanna geti ekki sagt til um það á þessu stigi hvenær vænta megi niðurstöðu úr þeirra samtölum. 

Varðandi atkvæðagreiðslu um vantraust á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra segir Birgir: „Nú kom vantrausttillagan fram við setningu fundar klukkan þrjú og það er eitt af því sem ég þarf að ræða við þingflokksformenn, bæði hvað varðar tímasetningu og fyrirkomulag umræðunnar. En venjan er sú að vantrausttillaga er yfirleitt tekin fyrir, bæði til umræðu og atkvæðagreiðslu, svona einum til tveimur sólarhringum eftir að hún kemur fram,“ segir Birgir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert