Þingfundi slitið eftir fimm mínútur

Þingmenn mættu til Alþingis nú síðdegis.
Þingmenn mættu til Alþingis nú síðdegis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti þingfundur Alþingis eftir páskafrí hófst kl. 15 en hann stóð aðeins yfir í nokkrar mínútur því öll mál voru tekin af dagskrá. 

„Öll dagskrármál þessa þingfundar eru nú tekin af dagskrá. Fleira liggur ekki fyrir á þessum fundi og boðað verður til næsta fundar með dagskrá, fundi er slitið,“ sagði Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, þegar klukkan var 15:05. 

Samkvæmt dagskrá átti fundurinn að hefjast á óundirbúnum fyrirspurnartíma. 

Birgir las þó í upphafi fundarins upp bréf frá Katrínu Jakobsdóttur þar sem hún sagði af sér þingmennsku frá og með deginum í dag. 

Bréfið er svohljóðandi:

„Með þessu bréfi segi ég af mér þingmennsku í ljósi þess að ég hef nú boðið mig fram til embættis forseta Íslands. Ég þakka forseta þingsins, þingmönnum og öllu starfsfólki þingsins gott samstarf undanfarin 17 ár og óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.“

Eva Dögg Davíðsdóttir mun taka sæti Katrínar á Alþingi en þar sem hún getur ekki sinnt þingmennsku á næstunni þá mun varamaðurinn René Biasone koma inn í hennar stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert