Skýrt skref í átt að stigmögnun

„Það alveg ljóst að írönsk stjórnvöld hafa lengi grafið undan …
„Það alveg ljóst að írönsk stjórnvöld hafa lengi grafið undan stöðugleika á þessu svæði,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, hefur áhyggjur af frekari stigmögnun átaka í Mið-Austurlöndum.

Hún fordæmir árás Írana á Ísrael í nótt, sem er viðbragð við „ólöglegri“ árás Ísraela á ræðismannaskriftsofur Írans í Sýrlandi. Hún vonar að stríðandi öfl sýni stillingu.

Íranski her­inn skaut fleiri en 300 árás­ar­drón­um og flug­skeyt­um að Ísra­el í for­dæma­laus­um árás­um í nótt.

„Það alveg ljóst að írönsk stjórnvöld hafa lengi grafið undan stöðugleika á þessu svæði,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

„Með þessari beinu árás á Ísrael þá hefur Íran tekið nokkuð skýrt skref í átt að stigmögnun. Bein árás á Ísrael að hálfu annars ríkis hefur ekki átt sér stað í 50 ár.“ 

Hún segir að íslensk stjórnvöld bindi vonir við að árásum linni tafarlaust.

Viðbrögð við „ólöglegri“ árás á íranskt sendiráð

Árás Írana var viðbragð við árás Ísraels á ræðisskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi þann 1, apríl. Átta létust í þeirri árás, m.a. hátt­settur hershöfðingi írönsku byltingarvarðanna. Þórdís kallar árásina ólöglega. 

Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt árás Írana, en fordæma þau einnig árásina í Sýrlandi þann 1. apríl?

„Árásir á borgaraleg skotmörk eiga auðvitað ekki að eiga sér stað. Það gilda alveg sérstakar reglur í alþjóðasamskiptum um friðhelgi sendiráða og ræðisskrifstofa. Við höfum séð með þessari ólöglegu árás [...] fleiri dæmi þess undanfarið að verið er að ráðast á sendiráð annarra ríka. Það eitt og sér er alvarlegt út frá þessum sérstöku reglum í alþjóðasamskiptum um friðhelgi sendiráða. Ef það verður einhver þróun sem heldur áfram er það mjög alvarlegt mál og þetta er enn eitt merki þessa vaxandi spennu í kringum okkur.“

En myndu þið fordæma ólöglegu árásina í Sýrlandi?

„Ég hef sagt skýrt að þessi árás á íranska sendiráðið í Sýrlandi sé ólögleg árás [...] og er brot á þessum reglum sem gilda í alþjóðasamskiptum, bæði hvað varðar friðhelgi sendiráða og ræðisskrifstofa,“ svarar utanríkisráðherra.

Óeðlileg viðbrögð Írana

Þrátt fyrir ólögmæti árásarinnar þann 1. apríl er árás Írana á Ísrael ekki eðlilegt viðbragð, að mati Þórdísar.

„[Árásin á Ísrael] var umfangsmikil árás sem við fordæmum og það sem skiptir máli er að aðilar sýni stillingu og hægt verði að slaka á þessari spennu en ekki auka hana,“ segir hún.

„Ef ekki væri fyrir þá stöðu að Ísrael er með eitt sterkasta loftvarnarkerfi heims, auðvitað getum við ekkert sagt til um það hvert nákvæmlega þeim var stefnt eða hvað hefði gerst.“

Sprengingar lýsa upp himininn í Jerúsalem í árás Írans í …
Sprengingar lýsa upp himininn í Jerúsalem í árás Írans í nótt. Skjáskot/AFPTV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert