Hjálmar: Hef aldrei millifært á mig fé heimildarlaust

Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélagsins.
Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélagsins. mbl.is/Hari

Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, kveðst aldrei hafa millifært fé á á sig heimildarlaust eins og fram kemur í úttekt á bókhaldi félagsins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag. Hann segir að það séu kaldar kveðjur eftir 35 ára árangursríkt starf í þágu félagsins að hafa fengið þann óþverra yfir sig sem raun ber vitni frá núverandi stjórn þess.

Hjálmar sendi mbl.is áréttingu í kjölfar fréttarinnar fyrr í dag. Þar greinir hann meðal annars frá því að hann hafi ekki enn fengið að sjá skýrslu KPMG og því hafi sum atriði sem borin voru undir hann verið mun ítarlegri nú en hann gat greint á aðalfundi félagsins fyrr í vikunni. Árétting Hjálmars fer hér á eftir í heilu lagi.

„Á dauða mínum átti ég von, en ekki því að vera nánast sakaður um að hafa misfarið með fé í frétt á vef Morgunblaðsins, míns gamla vinnustaðar, þar sem ég vann í rúman aldarfjórðung, og svo sem ekki heldur að ég fengi þann óþverra yfir mig frá stjórn Blaðamannafélagsins, sem gengið hefur yfir að undanförnu eða frá því mér var sagt upp störfum vegna ósættis við stjórn félagsins fyrir þremur mánuðum síðan.

Ég hef ekki enn fengið, ótrúlegt en satt, skýrslu KPMG þar sem tekin eru saman atriði úr rekstri BÍ síðastliðin tíu ár, en hef gert ráðstafanir til að fá hana til að geta svarað ásökunum sem á mig eru bornar lið fyrir lið. Þær upplýsingar sem koma fram í ofangreindri frétt mbl.is eru mun ítarlegri en þær sem ég gat greint við yfirferðina á aðalfundinum þar sem skýrslan var kynnt og mér var það ekki ljóst þegar blaðamaður mbl.is hafði samband við mig fyrr í dag.

Rukkaði aðeins helming kílómetrafjöldans

Það er því nauðsynlegt að árétta nokkur atriði strax varðandi það sem kemur fram í fréttinni. Í fyrsta lagi hef ég aldrei millifært á mig fé heimildarlaust. Ég hef hins vegar greitt mér og öðrum laun fyrirfram í einangruðum tilfellum, ef á hefur þurft að halda, eins og góðum atvinnurekanda ber að gera og slíkt jafnaði sig út yfirleitt um næstu mánaðamót á eftir. Í öðru lagi fékk ég ekki akstursstyrk aukalega. Ég fékk greiddan hóflegan fastan akstursstyrk mánaðarlega vegna aksturs innan höfuðborgarsvæðisins, en annar akstur vegna þjónustu við fjögur orlofshús félagsins var greiddur sérstaklega, eðlilega, enda um talsverðar fjarlægðir að ræða. Raunar kemur á óvart hve upphæðin er lág, enda rukkaði ég félagið yfirleitt ekki nema um helming þess kílómetrafjölda sem um var að ræða.

Svo er talað um heimildarlaus kaup á tölvum og símum yfir tíu ára tímabili? Það eru fréttir fyrir mig að kaup á tölvum fyrir formann og verkefnastjóra hafi verið heimildarlaus?! Málefnafátæktin ríður ekki við einteyming og þau atriði sem nefnd eru eru svo fáfengileg að engu tali tekur og eru sannarlega kaldar kveðjur eftir 35 ára árangursríkt starf í þágu félagsins.

Stjórn BÍ og stjórnir einstakra sjóða þess gátu alltaf kallað eftir upplýsingum úr bókhaldi félagsins. Skárra væri það nú, enda var það iðulega gert. Það er fráleitt að halda öðru fram og stenst enga skoðun. Í bókhaldi BÍ er ekkert að fela og allar upplýsingar um rekstur félagsins undanfarna hálfa öld eru til í gögnum þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka