85 milljón króna sekt fyrir skattalagabrot

Brotin gegn skattalögum áttu sér stað í rekstri einkahlutafélagsins Omzi …
Brotin gegn skattalögum áttu sér stað í rekstri einkahlutafélagsins Omzi á árunum 2018 og 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ómar Jóhannsson var á dögunum sakfelldur í héraðsdómi Suðurlands fyrir stórfelld skattalagabrot sem námu alls 34.362.579 krónum.

Var hann dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða sekt sem nemur 85 milljónum króna.

Umrædd brot hans áttu sér stað í rekstri einkahlutafélagsins Omzi á árunum 2018 og 2019, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2019. Í dómi héraðsdóms segir að Ómar hafi staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum.

Ekki áður sætt refsinu

„Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Brot ákærða voru stórfelld og nema verulegum fjárhæðum. Við ákvörðun refsingar ber þó að líta til að ákærði hefur í meginatriðum gengist við brotum sínum.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst í septembermánuði 2019 og var málinu vísað til héraðssaksóknara í febrúar 2021. Ákæra var síðan gefin út undir lok apríl 2023. Með tilliti til alls þessa verður ákærða gert að sæta fangelsi í átta mánuði en fresta ber fullnustu refsingarinnar í tvö ár haldi ákærði almennt skilorð,“ segir í dómnum.

Er honum gert að greiða 85 milljónir króna í sekt innan fjögurra vikna, en sæti ella fangelsi í 360 daga. Þá þarf hann einnig að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns upp á 3,5 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert