Byggingarnar of illa farnar við nánari skoðun

Árelía segir ósættið ekki óeðlilegt.
Árelía segir ósættið ekki óeðlilegt. mbl.is/Sigurður Bogi, Eggert Jóhannesson.

Ein af ástæðum þess að borgaryfirvöld hafa ákveðið að kúvenda stefnu sinni um uppbyggingu skóla í Laugardal er að skólabyggingar á svæðinu hafi verið mikið verr farnar en talið var. Þetta segir formaður skóla- og frístundaráðs. 

Ósætti hefur skapast vegna breytinga Reykjavíkurborgar á áformum um uppbyggingu skóla í Laugardal. Tilkynnt hefur verið að vikið skuli frá fyrri áætlunum sem mikil sátt ríkti um. Þungt hljóð hefur verið í foreldrum barna sem ganga í skóla á svæðinu eftir kynningafundi með Reykjvíkurborg. 

„Við tókum ákveðna ákvörðun fyrir tveimur árum, og við sem að stóðum að þeirri ákvörðun, þetta er náttúrulega alveg jafn erfitt fyrir okkur að mörgu leyti,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Hún segir að eftir að ákvörðunin var tekin á sínum tíma hafi verið farið í að skoða núverandi húsnæði. „Við sem erum í ráðinu [skóla- og frístundaráði] erum með ákveðnar forsendur í huga, en húsnæðið og það hvernig við vildum stækka hvern skóla fyrir sig, þau plön einfaldlega reyndust erfiðari en von var á. Þannig það var erfiðara að fara út í þessar húsnæðisbreytingar eins og við vildum,“ segir Árelía Eydís.

Ekki óeðlilegt að ósætti ríki

„Svo er borgin svo kvik að það bætast við forsendur sem breytast, þannig að það er farið í það að skoða möguleika út frá þeim breyttu forsendum sem hafa farið fram. Þá er það metið þannig að það sé í rauninni betri kostur út frá bæði framtíðarþróun og því hversu mikið rask á skólastarfi og hversu takmarkaðir möguleikarnir á stækkun eru. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að fólk sé ósátt við það.“

Þá segir Árelía ástæðuna fyrir því að farið sé í mikla kynningavinnu núna vera þá að það hafi verið vitað mál að fólki yrði brugðið við breytinguna og finnast hún erfið. Þau skilji það ósköp vel. Fólki liggi greinilega mikið á hjarta hvað þetta mál snertir.

„Við erum ekki að líta á það sem eitthvað óeðlilegt,” segir Árelía, þau séu að hlusta á athugasemdirnar sem berist.

Minna rask til framtíðar 

Spurð hvernig það hafi tekið jafn langan tíma og raun ber vitni að komast að þessari nýju niðurstöðu segir Árelía ferlið hafa tekið sinn tíma. Eftir að ákvörðun hafi verið tekin hafi þurft að leggja mat á hana út frá húsnæðiskosti. Þegar því mati hafi verið skilað í nóvember hafi þurft að taka niðurstöðuna til umræðu. Þá hafi borgarstjóraskiptin einnig tafið málið.

„Þetta er bara eins og þegar maður ætlar að fara í hvaða framkvæmd sem er, hún bara tekur lengri tíma, það er ekkert óeðlilegt að mínu mati,“ segir Árelía. Í grunninn hafi komið í ljós að byggingarnar hafi verið mikið verr farnar en talið var og því þótt best að fara þessa nýju leið, sem hún telur að valdi minna raski á skólastarfi.

„Í rauninni að einhverju leyti má segja, að [breytingin] sé minna rask á næstu árum fyrir skólastarf heldur en það ef að við þurfum að taka skólana og byggja við þá, miðað við það ástand sem er á þeim,“ segir Árelía. Þá sé nú búið að fá verkefnastjóra að borðinu og trúi nefndin því að það komi málum í réttan farveg svo hægt verði að hrinda framkvæmdaáætlun af stað sem fyrst.

Eðlilegt sé að fólki finnist staðan óþægileg en hluti af starfi skóla- og frístundaráðs sé að taka erfiðar ákvarðanir. Vegna möguleika á ósætti hafi mikil áhersla verið lögð á að kynna breytingarnar en verra sé að draga málið.

„Fólk er bara búið að bíða lengi,“ segir Árelía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert