VG í Kópavogi leggur fram stefnuskrá vegna sveitarstjórnarkosninganna

Ólafur Þór Gunnarsson og Guðbjörg Sveinsdóttir eru í tveimur efstu …
Ólafur Þór Gunnarsson og Guðbjörg Sveinsdóttir eru í tveimur efstu sætum á lista VG í Kópavogi. mbl.is/Eyþór
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is
Sveitarstjórnarkosningarnar í vor í Kópavogi snúast um þjónustu við fólk og hvernig búið er að því fólki sem býr í Kópavogi.

"Í því sambandi leggjum við áherslu á að sveitarfélagið á ekki að reka eins og fyrirtæki heldur á að reka það eins og samfélag. Þjónusta við bæjarbúa á að vera í forgangi og með því meðal annars að reka kröftuga menningarstefnu gerum við þetta að öflugra og sterkara samfélagi. Bærinn á að vera fyrir alla íbúana og við segjum þröskuldana burt. Þegar við segjum það erum við ekki bara að tala um þröskulda sem hindra aðgengi, heldur erum við einnig að tala um þröskulda sem hafa áhrif á það hvernig fólk getur tekið þátt í samfélaginu," sagði Ólafur Þór Gunnarsson, fyrsti maður á lista VG í Kópavogi meðal annars á fundi í gær þar sem stefna VG í Kópavogi var kynnt.

Vígi félagshyggjunnar

Fram kom að flokkurinn vill að bærinn verði aftur vígi félagshyggjunnar eins og áður var og að virk þátttaka bæjarbúa í stefnumörkun í málefnum hans verði efld. "VGK leggur í starfi sínu megináherslu á fjölskyldu-, velferðar- og umhverfismál. Flokkurinn vill byggja upp þróttmikið samfélag á grunni jafnaðar og velferðar í sátt við umhverfið.VGK leggur einnig áherslu á að sveitarstjórnarstigið verði eflt, og sveitarfélögunum verði gert kleift, með viðunandi gjaldstofnum, að takast á við ný verkefni," segir m.a. í stefnuskrá flokksins.

Meðal stefnumála má nefna að flokkurinn vill taka upp ókeypis leikskóla í bæjarfélaginu strax og hætta gjaldtöku í grunnskólum, auk þess sem skólamáltíðir í leik- og grunnskólum verði ókeypis. Hámark á að setja á stærðir bekkjardeilda í grunn- og leikskólum og allt nám yngstu barnanna, eins og hvað varðar listir og íþróttir á að vera innan heildstæðs grunnskóla. Einnig á að veita 40 þúsund kr. á ári vegna íþrótta-, lista- og tómstundanáms.

Þá vill flokkurinn marka bæjarfélaginu heildstæða stefnu í öldrunarmálum og að bærinn leggi Sunnuhlíð til 500 milljónir króna til viðbyggingar við hjúkrunarheimili samtakanna. Heimaþjónustu á að efla og aldraðir að fá niðurfellingu á hluta fasteignagjalda og fella á niður gjöld aldraðra vegna líkamsræktar, akstursþjónustu og strætisvagna.

Framboðið vill einnig að Kópavogur segi skilið við Launanefnd sveitarfélaga og taki frumkvæði að því að bæta launakjör þeirra sem vinna við uppeldis- og umönnunarstörf. Einnig að launakjör bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og pólitískt ráðinna embættismanna verði gagnsæ.

Framboðið vill einnig vernda græn svæði í bænum fyrir ágangi verktaka. Skipulagsmál séu umhverfismál og að marka þurfi ákveðna heildræna stefnu í verndun óspilltrar náttúru í landi bæjarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »