Segir Kópavogsbæ ekki hafa greitt 40% af framkvæmdakostnaði við Sunnuhlíð

Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti VG í Kópavogi, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að því fari fjarri að Kópavogsbær hafi lagt fram 40% af byggingarkostnaði við hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð, eins og Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, hafi haldið fram.

Yfirlýsing Ólafs er eftirfarandi:

    Vinstri græn í Kópavogi vilja að gefnu tilefni koma eftirfarandi á framfæri og leiðrétta rangfærslur Gunnars I. Birgissonar varðandi fjárframlög bæjarins vegna viðbyggingar við hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð á árunum 2001 og 2002. Gunnar og raunar fleiri sjálfstæðismenn hafa þráfaldlega haldið því fram í fjölmiðlum að Kópavogsbær hafi lagt til 40% af byggingarkostnaði.

    Í kosningaþætti á RUV ítrekaði ég að bærinn hefði ekki haft frumkvæði að byggingu hjúkrunarrýma þau 16 ár sem núverandi meirihluti hefur starfað. Orðrétt sagði Gunnar í útvarpsþætti þann 13.05 s.l. ( kosningafundur RUV kl. 13) sem svar við ummælum mínum. „Hann fer með rangt mál hér hann Ólafur og hefur ekki kynnt sér greinilega málin... fyrir fjórum árum byggðum við hér 25 hjúkrunarrými í Sunnuhlíð... Framkvæmdasjóður aldraðra með 40%, Kópavogsbær með 40% og svo var safnað 20%. Við skulum bara hafa það sem sannara er í þessum málum.”

    Hið rétta er að í ársreikningum Sunnuhlíðar fyrir árin 2001 og 2002 koma fram sundurliðuð framlög til byggingarinnar. Þar kemur einnig fram að heildarkostnaður við viðbygginguna var 270 milljónir króna. Framlag Kópavogsbæjar var 30 milljónir 2001 og 40 milljónir 2002, eða samtals 70 milljónir. Það er því fjarri lagi að bærinn hafi lagt fram 40% af kostnaði við nýbygginguna, framlag bæjarins var um 25%, 40% komu frá Framkvæmdasjóði aldraðra, en þau 35% sem eftir eru komu úr söfnunum og frjálsum framlögum til Sunnuhlíðarsamtakanna.

mbl.is