VG í Kópavogi kvartar til yfirkjörstjórnar

Vinstrihreyfingin-grænt framboð í Kópavogi mun óska eftir því við yfirkjörstjórn í bænum að hún meti hvort um eðlilega stjórnsýsluhætti í kringum kosningar sé að ræða þegar Gunnar Birgisson, bæjarstjóri, sendi bréf til bæjarbúa með viðfestri ávísun á bæjarsjóð Kópavogs.

Í tilkynningu frá VG kemur fram, að í bréfinu segi að ákvörðun hafi verið tekin um að endurskoða álagningu fasteignagjalda í fjölbýli, og því sé ávísunin send.

„Ákvörðun um þetta var tekin í bæjarráði þann 12. apríl 2006, og staðfest í bæjarstjórn þann 24.04.06. Mánuði síðar kýs Gunnar I. Birgisson síðan að senda ávísun með endurgreiðslu nokkrum dögum fyrir kosningar. Vinstri græn fordæma þessi vinnubrögð, sem eru ekkert annað en lítt dulin tilraun til atkvæðakaupa, og munu óska eftir því við yfirkjörstjórn í Kópavogi að hún meti hvort um eðlilega stjórnsýsluhætti í kringum kosningar sé að ræða," segir í tilkynningu VG í Kópavogi.

mbl.is