Vilja láta reyna á hvort D og F nái saman

Ólafur Þ. Magnússon, fulltrúi F-lista, á nú í óformlegum viðræðum ...
Ólafur Þ. Magnússon, fulltrúi F-lista, á nú í óformlegum viðræðum við sjálfstæðismenn í Reykjavík. mbl.is/ÞÖK
Fram kom í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins ætla að láta reyna á það á næstu dögum hvort málefnalegur grundvöllur sé fyrir hendi svo flokkarnir geti ná samkomulagi um að mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Viðræðurnar eru óformlegar enn sem komið er.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagðist hafa rætt við oddvita hinna flokkanna í borgarstjórn en nú væru þeir Ólafur að ræða óformlega saman um hvort einhverjir þeir fletir væru sem gerðu það að verkum að flokkarnir gætu ekki náð saman.

Ólafur sagði allt of snemmt að fullyrða, að flokkarnir muni ná saman, en sagðist hafa umboð 6500 Reykvíkinga um að mynda nýjan meirihluta. Hann sagði að frjálslyndir ættu ákveðna samleið með sjálfstæðismönnum í skipulags- og samgöngumálum. Hann sagði að um væri að ræða málefnalegar þreifingar en ekkert hefði verið rætt um embætti. Þá sagðist Ólafur ekki sækjast eftir embætti borgarstjóra heldur legði hann áherslu á að ná málefnum flokksins í gegn.

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokksins, sagðist hafa lýst því yfir við oddvita hinna flokkanna að hann væri reiðubúinn til viðræðna um myndun meirihluta. Hann sagðist hafa fengið viðbrögð frá Samfylkingu, F-lista og VG í nótt en ekki sjálfstæðismönnum en þeir Vilhjálmur hefðu rætt saman í síma í dag.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði að hann hefði hitt forsvarsmenn F-lista, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Framsóknarflokks í morgun. Sá fundur hefði verið góður og sýnt að ýmsir kostir væru í spilunum.

Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG, sagði að á þessum fundi hefðu ýmsu verið velt upp. Sagðist hún telja að flötur hefði verið á frekari viðræðum og ákveðið hefði verið að hittast aftur eftir hádegið. Þá hefði staðan breyst og Ólafur verið kominn í viðræður við Sjálfstæðisflokk.

Ólafur sagði, að alveg hefði verið ljóst í nótt að hann myndi tala bæði við Dag og Vilhjálm. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri í lykilstöðu með sjö fulltrúa en það væru málefnin sem giltu og því væri ekkert útilokað að fleiri næðu saman.

Vilhjálmur sagði að aðalatriðið væri að kjörnum fulltrúum bæri skylda til að mynda starfhæfan meirihluta í borgarstjórninni. Það gæti tekið 2-4 daga. Þess vegna yrðu menn að tala saman og það væri ekkert óeðlilegt við það; allir hefðu fullt leyfi til að tala saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina