Samanlagt tap stjórnmálaflokkanna 281 milljón

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ríkisendurskoðun hefur birt útdrætti úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2007 þar sem m.a. koma fram upplýsingar um fjárframlög til þeirra frá lögaðilum. Samanlagt tap flokkanna fyrir árið 2007 nemur 281 milljón króna. Samfylkingin tapaði mestu eða 89,7 milljónum króna en Frjálslyndi flokkurinn minnstu 28,4 milljónum króna. Tap Íslandshreyfingarinnar nemur 28,4 milljónum króna, Framsóknarflokksins 60,3 milljónir króna, Sjálfstæðisflokksins 37,3 milljónir króna og tap Vinstri grænna nam 36,2 milljónum króna á árinu 2007.

Gert er ráð fyrir að birta sams konar útdrætti fyrir árið 2008 eigi síðar en næsta haust.
 
Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra skulu stjórnmálasamtök árlega skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum sem í kjölfarið skal birta útdrætti úr þeim. Þar eiga að koma fram upplýsingar um heildartekjur og gjöld, uppruna tekna og helstu stærðir í efnahagsreikningi. Þá skal greina sérstaklega frá afsláttum sem viðkomandi samtök hafa fengið frá markaðsverði vöru eða þjónustu. Enn fremur skal birta nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög til starfseminnar.


 


 

mbl.is

Bloggað um fréttina