Moldviðri vegna þess að róttækur femínisti lagði miðaldra mann

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir.

Silja Bára Ómarsdóttir, háskólakennari, segir á bloggsíðu sinni að umræða um að haft hafi verið rangt við í forvali Vinstri grænna í Reykjavík um helgina sé lítið annað en moldviðri til að draga úr því að ung kona, Sóley Tómasdóttir, alkunnur róttækur femínisti, hafi lagt miðaldra mann að velli í keppni um oddvitasætið í forvali ríkisstjórnarflokks.

Þorleifur Gunnlaugsson, sem lenti í 2. sæti í forvalinu, kærði framkvæmd póstkosningar og taldi að farið hefði verið á svig við reglur. Kjörstjórn forvalsins komst hins vegar að þeirri niðurtöðu að  framkvæmd forvalsins hafi verið í samræmi við reglur þess.  

„Síðastliðinn laugardag sat ég ásamt nokkrum öðrum stuðningsmönnum Sóleyjar og hringdi í fólk sem ég taldi líklegt til að kjósa hana. (...)
Eitt af símtölunum sem ég hringdi var í konu sem svo vill til að var í námskeiðum hjá mér fyrir 3-4 árum. Hún byrjaði að skrifa hjá mér MA ritgerð en ég hef ekki séð hana í ca ár. Við höfum rætt pólitík og ég veit að hún kýs gjarnan í forkosningum svo ég ákvað að hringja í hana og athuga hvort hún hefði komist á kjörstað. Ég sagði henni því að það væri hægt að koma til hennar kjörseðli ef hún kæmist ekki á kjörstað. Hún afþakkaði. Ég man ekki einu sinni hvort ég sagði henni að ég væri að hringja frá Sóleyju, og ég spurði hana sannarlega ekki að því hvern hún ætlaði að setja í fyrsta sætið á listanum.

Þetta tilboð er nú orðið að sögu um það að ég hafi gengið í hús og borið atkvæðaseðla á nemendur. Faðir þessa fyrrum nemanda ásakaði mig líka um að ætla að koma í veg fyrir leynilega atkvæðagreiðslu, sem ég skil ekki alveg því viðkomandi hefði auðvitað fyllt út kjörseðilinn og sett hann í tvö umslög, sem einhver (ekki ég, því ég var ekkert að skutlast) hefði farið með á kjörstað," segir Silja Bára m.a. í bloggfærslu sinni.

Bloggsíða Silju Báru 

mbl.is