Fleiri kosið í Reykjavík

Starfsmenn undirkjörstjórar í Reykjavík flokka utankjörfundaratkvæði í Ráðhúsi Reykjavíkur í ...
Starfsmenn undirkjörstjórar í Reykjavík flokka utankjörfundaratkvæði í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Ómar

Fleiri höfðu kosið í Reykjavík kl. 17 en á sama tíma í sveitastjórnakosningunum árið 2006. Alls höfðu 38.503 greitt atkvæði eða 44,89% en fyrir fjórum árum höfðu 44,79% kosið. Allt hefur gengið að óskum í dag, að sögn Kristínar Edwald, formanns kjörstjórnar.

Á Seltjarnarnesi er einnig meiri kjörsókn en fyrir fjórum árum. Klukkan 17 höfðu 1.476 greitt atkvæði sem er 48,2% af kjörskrá.

Í Kópavogi mældist kjörsókn nú síðdegis 42,4% en þá höfðu 9.071 manns lagt leið sína á kjörstað.

Í Hafnarfirði höfðu 6.882 manns kosið eða 38,6%. Það eru 3.581 konur og 3.301 karlar. Það er minna en fyrir fjórum árum þegar 40,9% höfðu greitt atkvæði á sama tíma.

Heldur minni kosningaþátttaka er í Mosfellsbæ en þar höfðu 2.345 kosið klukkan 17 eða 40,5% af kjörskrá. Það er fjórum prósentum minna en fyrir fjórum árum.

Milli 1300 og 1400 manns höfðu kosið í Skagafirði öllum um kl. 16 í dag og mun það vera nálægt 45% þátttaka. Haft er eftir Hjalta Árnasyni, formanni yfirkjörstjórnar í Skagafirði, á fréttavef Feykis, að það sé heldur dræm þátttaka miðað við aðrar kosningar.

Kjósendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Kjósendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina