Þjóðaratkvæði um ESB í stjórnarsáttmála

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Samkomulag hefur náðst milli Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um öll þau stóru mál sem steyttu á skeri í síðustu viðræðum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir nú aðeins eftir að setjast niður og skrifa stjórnarsáttmála og að það þyrfti ekki að taka meira en tvær vikur. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun þjóðaratkvæðagreiðsla verða haldin á kjörtímabilinu um hvort hefja eigi að nýju viðræður við Evrópusambandið.

Í sjávarútvegsmálum mun hlutfall af aflaheimildum verða boðið upp árlega til að tryggja að markaðsverð fáist fyrir aflaheimildirnar. Þannig mun markaðurinn ákveða hvað samfélagið geti fengið fyrir aflaheimildir á markaði.

Varðandi landbúnaðarmál verða tollar lækkaðir á bæði kjúklinga og svínakjöt og tollar á osta og aðrar landbúnaðarafurðir verða lækkaðir í áföngum á næsta kjörtímabili samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Einnig verður endurskoðun búvörusamninga tekin föstum tökum. Þá hefur náðst samkomulag milli flokkanna um að afnema undanþágur Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert