Harmar brotthvarf Sigmundar

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og ...
Þrír þingmenn Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á þingsetningu fyrir stuttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins, segist harma brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr Framsóknarflokknum.

„Ég studdi hann til formennsku árið 2009 og okkar leiðir hafa legið saman í efnahagsmálunum. Hvernig bæta megi stöðu þjóðarbúsins og samkeppnisstofnana. Við höfum unnið saman að úrlausn stórra efnahagsmála eins og almennu skuldaleiðréttingunni og losun fjármagnshafta. Við höfum náð umtalsverðum árangri hvað það varðar. Þannig að þetta eru vont að frétta þetta,“ segir Lilja Dögg.

Hún segist hafa lagt áherslu á að nálgast þessar kosningar á þann hátt að framsóknarmenn snúi bökum saman um að stilla upp sterkum listum hjá Framsóknarflokknum.

„Menn voru komnir í ákveðin innanhúsátök um aðferðir á vali á framboðslistum og ég kaus að senda út ákveðin skilaboð til flokksmanna í gær um að brýnt væri að halda vel utan um þetta þannig að fólk upplifði það að við værum að fara inn í þessar kosningar sem samheldinn hópur,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Að sögn Lilju hefur samstarf hennar og Sigmundar Davíðs verið gott og þau náð góðum árangri í efnahagsmálum á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra.

mbl.is