Sigmundur Davíð hættir í Framsókn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/RAX

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknaflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur sagt skilið við Framsóknarflokkinn og hyggst vinna að myndun nýs stjórnmálaafls fyrir kosningar.

Hann greinir frá þessu í bréfi til Framsóknarmanna á heimasíðu sinni, en aukakjördæmisþing fer fram í Norðausturkjördæmi í dag þar sem Sigmundur er oddviti flokksins. Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður flokksins, hafði lýst því yfir að hún sæktist eftir oddvitasætinu í kjördæminu í komandi kosningum.

Treysti varaformanninum fyrir fjöregginu sínu 

Sigmundur fer í bréfinu yfir feril sinn í stjórnmálum á síðastliðnum níu árum. Hann hafi gengið til liðs við Framsóknarflokkinn þar sem hann kynntist heiðarlegu og einlægu hugsjónafólki sem var reiðubúið að leggja á sig vinnu og færa fórnir til að bæta líf samborgaranna. „Sú mynd sem ég hafði haft af stjórnmálaflokkum breyttist. Þótt ég hefði alltaf verið Framsóknarmaður óttaðist ég að flokkar stjórnuðust af öðru en einlægum hugsjónum þar til ég var kynntur fyrir einstaklega góðu Framsóknarfólki um allt land.“

Sigmundir segir aðdáun sína á Framsóknarflokknum og fólkinu sem hann skipaði hafa gengið mjög langt. Hann hafi farið að líta svo á að samasemmerki væri á milli þess að vera Framsóknarmaður og traustur og góður einstaklingur. Það breyttist hins vegar.

„Sú mynd hrundi á síðasta ári. En um leið fór mér þó að þykja enn vænna en áður um þá vini mína í flokknum sem reyndust mér stoð og stytta í mótlæti.“

Hann fer einnig yfir það hvernig hann hafi horfið úr embætti forsætisráðherra í kjölfar umfjöllunar um Panamaskjölin og fyrirhugaða endurkomu sína sem fór ekki eins og hann hafði gert ráð fyrir.

„Eftir að hart var að mér sótt síðast liðið vor, harðar en nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur kynnst í seinni tíð, ákvað ég að stíga til hliðar á meðan rykið væri að setjast og mál að skýrast. Það gerði ég í von um að geta veitt ríkisstjórninni vinnufrið til að klára þau gríðarstóru og mikilvægu mál sem við vorum að vinna að en höfðum ekki lokið. Í því skyni samdi ég við varaformann flokksins um að hann tæki við forsætisráðuneytinu á meðan. Ég bað hann aðeins um tvennt. Annars vegar að ég fengi að fylgjast með gangi mála. Hins vegar að hann stæði við það sem hann hafði marglofað mér, að eigin frumkvæði, og myndi ekki nýta þá stöðu sem honum yrði veitt til að fara gegn mér. Síðara atriðið nefndi ég þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar varaformannsins um að ég skyldi aldrei efast um tryggð hans. Hvað sem á gengi mætti ég treysta því. Ég rifjaði þetta upp fyrir honum vegna þess að með tillögunni var ég að treysta honum fyrir fjöreggi mínu. Eftir þetta eftirlét ég ríkisstjórninni sviðið og dró mig í hlé um sinn.“

Sex tilraunir til að fella hann sem formann

Sigmundur segist hafa upplifað gjörbreyttar aðstæður í samfélaginu þegar hann snéri aftur í byrjun sumars 2016. Hann hafi aldrei á pólitískum ferli sínum fundið eins mikla velvild frá eins mörgu fólki og mætti honum eftir heimkomuna.

Um haustið, á 100 ára afmæli Framsóknaflokksins, hafi hins vegar hópur innan flokksins ákveðið að steypa honum í stríð og fórna endurreisn flokksins.

„Á afmæli Framsóknarflokksins fékk Sjálfstæðisflokkurinn kosningasigur að gjöf og Framsókn tók á sig mesta tap frá upphafi. Þeir sem þetta gerðu, gerðu það með opin augun, eins og einn ræðumaður á flokksþinginu orðaði það, og beittu til þess aðferðum sem ekki hafði hvarflað að mér að yrði nokkurn tímann beitt í Framsóknarflokknum.“

Sigmundur segir að andstæðingar hans í flokknum hafi gert sex tilraunir til að að fella hann úr formannsstóli á sínum tíma og á síðasta ári hafi svo verið gerð tilraun til að fella hann í sínu eigin kjördæmi, Norðausturkjördæmi. „Hvorki fleiri né færri en þrír þingmenn flokksins létu sannfæra sig um að þeir ættu að bjóða sig fram gegn mér í fyrsta sæti. Þetta var mér tilkynnt um leið og framboðsfrestur var að renna út.“ Það hafi hins vegar ekki tekist að fella hann, enda hafi hann fengið þrjá fjórðu atkvæða þegar upp var staðið.

Hann segir aðferðirnar sem hafi verið notaðar eigi ekkert skylt við lýðræði og að hluta til hafi hreinum svikum verið beitt.

Síðasta sumri varði hann í að skrifa bók um sögu íslenskra stjórnmála síðastliðin tíu ár og framtíðarhorfur, ásamt því að undarbúa starf Framfarafélagsins sem hann stofnaði í sumar. „Félagið var hugsað til að halda utan um þann hóp Framsóknarmanna sem vildi sjá framhald á því hvernig við unnum hlutina á árunum 2009-2016 en einnig fyrir fólk sem stendur utan flokksins en vill sjá framfarir á sömu forsendum.“

Þegar skyndilega var boðað til kosninga segir hann fyrri áætlanir hafa breyst, enda ljóst að nú þyrfti að einhenda sér í kosningaundirbúning. „Hópur flokksmanna leit hins vegar á kosningarnar sem enn eitt tækifærið til að ljúka því verki sem lagt var upp með á síðasta flokksþingi,“ segir Sigmundur.

„Þá þegar var hafist handa við að hrekja í burtu oddvitana í tveimur sterkustu kjördæmum flokksins, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Ljóst er að undirmál höfðu haldið áfram með hefðbundnum aðferðum en þegar tilkynnt var um kosningar var allt sett á fullt og unnið eftir sömu aðferðum og í aðdraganda flokksþingsins.“

Ásmundur Einar Daðason tilkynnti það á aukakjördæmisþingi í Norðvesturkjördæmi í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram í fyrsta sætið í kjördæminu gegn Gunnari Braga Sveinssyni, sitjandi oddvita.

Þá hafi Þórunn Egilsdóttir verið búin að tilkynna að hún ætlaði að fara á móti Sigmundi í fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi.

Stóð frammi fyrir tveimur valkostum

Sigmundur segist því afa staðið frammi fyrir tveimur valkostum. Annar hafi verið sá að sætta sig eina ferðina við að lög og reglur flokksins hafi verið brotnar til að ná markmiðum afmarkaðs hóps. „Verja svo næstu tveimur vikum í að berjast enn á ný fyrir sætinu sem ég varði síðast fyrir einu ári með yfirburðastuðningi. Verjast þannig sjöundu tilraun sama hóps til að koma mér frá.“ Þá þyrfti hann einnig að verjast tilraun innanflokksmanna til að fella hann með útstrikunum og að loknum kosningum tæki hann sæti í 5 til 6 manna þingflokki sem yrði eingöngu skipaður fólki sem hefði það að sína æðsta markmiði að koma honum frá. „Eftir það yrði ég farþegi í stjórnarmeirihluta sem byggði á útdeilingu embætta fremur en málefnum flokksins og myndi horfa upp á áframhaldandi upplausn í stjórnmálum á Íslandi.“

Sigmundur segir að með því gangi hann gegn öllu sem lát til grundvallar ákvörðun hans um að hefja þátttöku í stjórnmálum. „Ég velti því líka fyrir mér hvort ég geti með góðri samvisku lagt þetta á fjölskyldu mína, vini og stuðningsmenn í flokknum. Eftir að hafa á undanförnum dögum séð að hópurinn sem nú ræður för innan flokksins er reiðubúinn til að fórna öðrum kosningum og gæfu og gengi flokksins til að losna við mig og aðra sem ekki eru þeim að skapi hef ég því ákveðið að velja hinn kostinn.“

Hinn kosturinn er sá að vinna að myndun nýs stjórnmálaafls með fólki sem er reiðubúið að starfa á sömu forsendum og við leituðumst við að gera frá 2009 til 2016.

„Bjóða upp á valkost sem svarar kalli tímans og bregst við upplausnarástandi stjórnmálanna með skynsemishyggju og réttlæti að leiðarljósi. Vinna með traustu og heiðarlegu fólki að því að mynda flokk sem hefur þolgæði og kraft til að standa vörð um það sem er sanngjarnt og rétt, líka þegar það er erfitt. Flokk sem getur veitt stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en er um leið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokk sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma.“

mbl.is