Vill að ríkið kaupi Arion-banka

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpar stofnfund Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpar stofnfund Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnandi Miðflokksins hélt tölu á stofnfundi flokksins, sem haldinn var í Rúgbrauðsgerðinni síðdegis. Þar kynnti hann nokkrar áherslur fyrir komandi kosningar og þau mál sem hann telur að íslenskt samfélag þurfi að setja á oddinn.

Baráttumál flokksins voru ekki kynnt nákvæmlega en Sigmundur nefndi þó að ríkið ætti að nýta sér forkaupsrétt sinn á Arion-banka. Það gæfi ríkinu tækifæri til þess að endurskipuleggja fjármálakerfið.

„Tækifærið er núna til þess að móta þetta kerfi upp á nýtt, þannig að það virki í þágu almennings og fyrirtækja á Íslandi,“ sagði Sigmundur Davíð.

Húsfyllir var á stofnfundi Miðflokksins.
Húsfyllir var á stofnfundi Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá lagði hann áherslu á að heilbrigðiskerfið verði rekið af hinu opinbera, en verði „rekið betur“ en verið hefur. Einnig kom fram í máli Sigmundar Davíð að áhersla verði lögð á að bæta kjör eldra fólks og útrýma „neikvæðum hvötum“ úr kerfinu, sem hamli atvinnuþátttöku eldri borgara.

Þá gaf Sigmundur í skyn að Miðflokkurinn muni beita sér fyrir málefnum landsbyggðarinnar og sagði hann að byggðastefna flokksins muni heita „Ísland allt“. Hann sagði það hagsmuni allra Íslendinga að öll landsvæði væru öflug.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Framboðslistar ekki kynntir

Framboðslistar flokksins voru ekki kynntir í dag, en Sigmundur Davíð sagðist vonast til þess að þingmenn Miðflokksins verði „pólitísk sérsveit“ sem ryðji hindrunum stjórnkerfisins úr vegi og að vandamál stjórnmálanna síðustu ár hafi verið að stjórnmálaflokkar séu orðnir tregir til að taka umdeildar ákvarðanir.

„Menn voru hættir að þora að stjórna,“ sagði Sigmundur og segir að við þær aðstæður virki lýðræðið ekki sem skyldi. Hann sagði Framsóknarflokkinn og hina stjórnmálaflokkana ekki lengur geta gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað, að koma vilja kjósenda í verk.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er auðvitað erfitt mig, mann sem var formaður flokks og mann sem hefur að hverfa á braut og yfirgefa þann flokk. En þegar flokkar eru ekki lengur færir um að gegna því hlutverki sem þeim var ætlað, verða menn að búa til nýjan vettvang til þess.“

Miðflokkurinn streymdi beint frá fundinum. Hér má sjá upptöku frá fundinum og ræðu Sigmundar Davíðs.

mbl.is