Breyta þurfti samþykktum til að kjósa Þorgerði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar mbl.is/Eggert

Samþykktir Viðreisnar kveða á um að formaður og varaformaður skuli ekki vera af sama kyni en stjórn Viðreisnar breytti ákvæðinu áður en Þorgerður Katrín var kjörin formaður. Breytingin var gerð á grundvelli bráðabirgðarákvæðis sem heimilar stjórn flokksins að gera bráðabirgðabreytingar á samþykktum flokksins. Þetta staðfestir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar. 

„Stjórnin hefur heimild til að breyta reglum flokksins fram að næsta landsþingi og í ljósi þessara einstöku aðstæðna sem voru uppi beitti stjórn Viðreisnar þeirri heimild. Þetta var allt saman meðvitað og upplýst. Það er náttúrlega einstakt dæmi að formaður stjórnmálaflokks stígi til hliðar með hagsmuni flokksins að leiðarljósi svona skömmu fyrir kosningar og við urðum að bregðast við þeim aðstæðum,“ segir Birna. 

Konur í helstu stjórnendastöðum

Eftir kjör Þorgerðar leiða tvær konur Viðreisn en Jóna Sólveig Elínardóttir heldur áfram sem varaformaður. Þar að auki er Hanna Katrín Friðriksson formaður þingflokks Viðreisnar og Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri. „Ég hugsa að þetta sé einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu ef frá er talinn kvennalistinn,“ segir Birna. 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar og Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður flokksins.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar og Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður flokksins. Ljósmynd/Viðreisn

Tíðkast í flestum stjórnmálaflokkum

Ásdís Rafnar, stjórnarmaður Viðreisnar, segir að ákvæði sem heimili stjórn stjórnmálaflokks að gera breytingar á samþykktum tíðkist í flestum stjórnmálaflokkum. „Við erum með þetta inni sem bráðabirgðaákvæði þannig að stjórnin getur gert breytingar til bráðabirgða fram að næsta landsþingi. Svona ákvæði tíðkast í samþykktum flestra stjórnmálaflokka og er til að mynda viðvarandi hjá Sjálfstæðisflokknum,“ segir Ásdís. 

Hefði metið stöðu sína ef til þess kæmi

Jóna Sólveig Elínardóttir segist ánægð með ákvörðun stjórnarinnar í samtali við mbl.is „Ákvörðun Benedikts er ótrúlega einkennandi fyrir þann vandaða mann sem hann hefur að geyma. Hann er einn vandaðasti og heiðarlegasti maður sem ég þekki og horfir þarna kalt á stöðu flokksins en um leið út frá hjartanu, hann er meðvitaður um stöðu flokksins og tilbúinn að stíga til hliðar og gera það sem gera þarf til að koma frjálslyndum sjónarmiðum Viðreisnar á framfæri. Mér finnst það ofsalega virðingarvert og þetta er í raun einstakt í íslenskum stjórnmálum. Ég hef fulla trúa á því að við munum halda áfram sterk í kosningarbaráttunni,“ segir Jóna Sólveig. 

Aðspurð segir hún það ekki hafa komið til tals að hún myndi víkja úr sæti varaformanns flokksins til þess að ekki þyrfti að breyta samþykktum flokksins. „Það var ekki gerð nein önnur tillaga um breytingu á stjórninni heldur var þetta meðvituð ákvörðun um að hafa þetta svona fram að landsþingi vegna þessara sérstöku aðstæðna. Ef það hefði verið gert þá hefði ég einfaldlega þurft að meta það. Ég var bara ekki búinn að hugsa neitt sérstaklega um það, en þetta eru sérstakir tímar sem við lifum á,“ segir Jóna. 

Hér má sjá samþykktir Viðreisnar sem hafa verið uppfærðar í samræmi við ákvörðun stjórnar.

mbl.is