Verðum að hugsa til framtíðar

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir að markmið stjórnmálanna sé ekki síst að reyna að tryggja það að framtíðin verði björt. Hann segir að illa hafi gengið að byggja upp traust á stjórnmálunum og endurnýja vinnubrögð þar eftir hrun. Björt framtíð leggi áherslu á heiðarleika í vinnubrögðum og hann þurfi að vera framar í forgangsröðinni.

„Við leggjum einnig áherslu á græna framtíð,“ segir Óttarr og bætir við að íslensk náttúra sé ekki bara hluti af sjálfsmynd okkar, heldur sé hún einnig grunnurinn að ferðamannaiðnaðinum, stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar.  

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá leggi Björt framtíð áherslu á skapandi framtíð og að hér verði haldið áfram að byggja upp stöðugt og skapandi samfélag sem skemmtilegt er að búa í, starfa og ala upp börn. Ekki sé sjálfgefið að fólk sjái framtíð sína fyrir sér hér á landi, og því þurfi stjórnmálamenn að búa til umhverfi þar sem traust ríki og settar eru leikreglur sem byggi undir framtíðina.

Rætt er ítarlega við Óttarr í Morgunblaðinu í dag og leggur hann þar áherslu á það að hugsa þurfi stjórnmálin meira til lengri tíma, þar sem íslensk stjórnmál eigi það of oft til að snúast um stök mál eða einstakar persónur. 

Bloggað um fréttina