„Svo sem ekki mjög upplífgandi tölur“

Formaður Bjartrar framtíðar segir tölur úr nýjustu skoðanakönnuninni ekki upplífgandi ...
Formaður Bjartrar framtíðar segir tölur úr nýjustu skoðanakönnuninni ekki upplífgandi fyrir flokkinn. mbl.is/Eggert

„Þetta eru svo sem ekki mjög upplífgandi tölur og ekki heldur í takt við það sem við höfum verið að upplifa. Við finnum frekar fyrir auknum áhuga,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. En þessar tölur kalla á að við þurfum að gera betur. Það er enn þá slatti af fólki óákveðinn og það er enn dálítið í kosningar. Maður verður að spyrja að leikslokum.“

„Ætlum að vinna hylli kjósenda“

„Fylgið er enn á fleygiferð í þessari kosningabaráttu og erfitt að átta sig á hvar hver flokkur stendur. Það er líka mikill munur á könnunum,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík suður. „Það er enn þá mikill hugur í okkur og við erum í góðum gír. Við hlökkum til að takast á við lokasprettinn og ætlum að vinna hylli kjósenda.“

„Það góða er að við erum inni“ 

„Þetta er allt á réttri leið og í samræmi við það sem við erum að finna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. „Það góða er að við erum inni núna en við þurfum að halda áfram. Ég er þakklát fyrir þetta fylgi en ég vil bæta við síðustu vikuna. Ég vil bæta við svo að rödd Viðreisnar um frjálslyndi verði sem sterkust inni á þingi.“

 „Ég vona að við séum á réttri leið“

„Við finnum fyrir meðbyr og erum að sækja í okkur veðrið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. „Að mínu mati hefur kosningabaráttan af okkar hálfu verið jákvæð og málefnaleg og við höfum náð eyrum fólks. Ég vona að við séum á réttri leið og síðustu átta dagarnir muni skila okkur enn betri útkomu en ella. Ég er bjartsýnn.“

 „Ekki hægt að kvarta undan þessu“ 

„Það er ekki hægt að kvarta undan þessu, þetta er mikið stökk upp á við á einni viku,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. „Við höfum stundum mælst heldur lægri hjá Félagsvísindastofnun en annars staðar svo að þetta er sérstaklega ánægjulegt í því samhengi. Við munum halda okkar striki og það er vissulega hvatning þegar fylgið eykst.“

Flokkurinn að ná í gegn með sín stefnumál 

„Ég hef verið að fara á stóra fundi um land allt á hverjum degi, kraftmikla fundi, og ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn sé að ná í gegn með sín stefnumál,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. „Þessar kosningar snúast um skatta og ábyrga innri uppbyggingu. En þær snúast líka um Evrópusambandið og með vissum hætti sjálfsmynd okkar. Hvort við höfum trú á landi og þjóð eða ekki.“

„Fengið gríðarlega jákvæðar móttökur“ 

„Það er vika til kosninga og við getum ekki verið annað en ánægð með okkar fylgi. Við stefnum að því að uppskera í kosningunum en það er ljóst að það er enn margt sem getur gerst á síðustu metrunum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. „Baráttan hefur verið skemmtileg. Við höfum lagt á það áherslu að hitta fólk augliti til auglitis og höfum fengið gríðarlega jákvæðar móttökur.“

„Meðvituð um að þetta er skoðanakönnun“

„Þetta er gleðilegt. Það er gaman að vera í kosningabaráttu með samhentu fólki sem hefur ástríðu fyrir því að breyta samfélaginu til hins betra,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. „Við erum auðvitað meðvituð um að þetta er skoðanakönnun og það er mikil vinna fram undan. Við munum því halda okkur algerlega á jörðinni en við finnum sterkt fyrir óskinni um betra, réttlátara og öruggara samfélag.“

„Erum við ekki bara bjartsýn áfram?“

„Erum við ekki bara bjartsýn áfram? Jú, við tökum endasprettinn með stæl,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Flokkur hennar hefur misst nokkurt fylgi í undanförnum könnunum en Inga lætur ekki deigan síga. „Þetta verður mjög spennandi á lokametrunum og þannig vil ég hafa það. Þetta er skemmtileg barátta og okkur er mjög vel tekið.“