Viðreisn sýnir spilin

„Við þorum að breyta,“ sagði Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, á ...
„Við þorum að breyta,“ sagði Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, á kosningafundi Viðreisnar í Ármúla í dag. mbl.is/Golli

Meðalheimili gæti sparað um 150 þúsund krónur á mánuði ef vaxtaskilyrði og matvælaverð væri samanburðarhæft við það sem gerist á Norðurlöndum. Þetta kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar velferðarráðherra á kosningafundi Viðreisnar sem haldinn var í dag undir yfirskriftinni Sýnum spilin. Á fundinum kynnti Þorsteinn reiknivél þar sem neytendum gefst kostur á að reikna þann kostnað sem fylgir krónunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður hóf fundinn á að skora á aðra flokka að kynna mótaðar tillögur um hvernig þeir hyggjast fjármagna útgjaldaloforð. Nýsamþykkt fjármálaáætlun er lögð til grundvallar útgjaldaloforðum flokksins, en þó bætt í á ýmsum sviðum, alls 11,5 milljörðum á ársgrundvelli.

Fjármálaáætlun til grundvallar

Í lok næsta kjörtímabils er stefnt að því að útgjöld ríkisins á hvern háskólanema verði á pari við hin Norðurlöndin. Framlög til háskóla á Íslandi eru í dag um 2,3 milljónir á hvern nema eða um 52% af því sem gerist á hinum Norðurlöndunum og því ljóst að um verulega innspýtingu er að ræða.

Heilbrigðis- og velferðarmál fái mesta innspýtingu á kjörtímabilinu eða um 37 milljarða, 3,5 milljörðum umfram það sem fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Útgjöld til félagsmála verði aukin um 27 milljarða eða 2,5 milljarða umfram fjármálaáætlun en það skýrist af afnámi bótaskerðingar vegna atvinnutekna eldri borgara, sem Viðreisn hefur boðað.

Skattar ekki hækkaðir

Flokkurinn boðar hlutlausar skattkerfisbreytingar, þ.e. að heildarskattar verði ekki hækkaðir á kjörtímabilinu. Persónuafsláttur verði hækkaður þannig að skattleysismörk verði 192 þúsund krónur á mánuði í stað 143 þúsunda eins og nú er og efra þrep virðisaukaskatts lækkað úr 24% í 22,5% en slíkt jafngildir um 16 milljarða skattalækkun á ársgrundvelli. Á móti fáist auknar tekjur með því að færa ferðaþjónustu úr lægra þrepi í það hærra. Þeirri aðgerð verði þó frestað, enn einu sinni, og taki því ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020. Verða þá liðin átta ár frá því tillaga um slíka hækkun var fyrst borin upp á Alþingi.

Tryggingagjald verði lækkað í áföngum um hálft prósentustig en með því lækkar skattbyrði atvinnurekenda um 7,5 milljarða króna á ári. Þá verði skattalegir hvatar fyrir nýsköpunarfyrirtæki auknir, til að mynda með því að hækka þak á þær tekjur sem nýsköpunarfyrirtæki mega undanskilja frá skattstofni vegna vinnu við rannsóknir og þróun, en það er nú 300 milljónir á ári.

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður flokksins, ítrekaði að Viðreisn hygðist standa við þær kerfisbreytingar sem flokkurinn var stofnaður um. Gengi krónunnar yrði fest við evru, landbúnaðarkerfinu breytt og markaðsleið komið á í sjávarútvegi.

mbl.is