Stefnir í viðræður til vinstri

Flestir telja að Katrín Jakobsdóttir verði næsti forsætisráðherra, samkvæmt frétt …
Flestir telja að Katrín Jakobsdóttir verði næsti forsætisráðherra, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Verði niðurstaða kosninganna þessi er það ákall um að stjórnarandstaðan myndi ríkisstjórn. Það eru í raun og veru mestu tíðindin að ríkisstjórnin er fallin og stjórnarandstaðan er komin með meirihluta,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um niðurstöður nýrrar og umfangsmikillar könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur unnið fyrir Morgunblaðið. Var hún gerð dagana 22. til 25. október og var úrtakið 3.900 kjósendur. Samkvæmt henni mælist VG með 20,2% og 14 þingmenn en í könnun stofnunarinnar í síðustu viku mældist flokkurinn með 23,2% og 16 menn inni.

Gangi könnunin eftir er ekki mögulegt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn. Þriggja flokka stjórn er ekki hægt að mynda án Sjálfstæðisflokksins. Nokkrir möguleikar eru á fjögurra flokka stjórn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir könnunina undirstrika að líkur séu á því að vinstristjórn verði mynduð að kosningum loknum. „Þessar tölur horfa þannig við mér að við þurfum að bæta okkur enn frekar. Við erum tryggingin gegn vinstristjórn eins og mætti orða það. Það er enn raunveruleg hætta á því að hér myndist vinstristjórn ef við náum ekki að bæta við okkur á endasprettinum.“

Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn með 24,5% fylgi á landsvísu, sem tryggir honum 17 þingmenn. Gangi könnunin eftir tapar flokkurinn fjórum þingmönnum frá síðustu kosningum þegar hann hlaut 29% atkvæða.

Samfylkingin er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni og fengi 10 þingmenn. Það yrðu mikil umskipti frá kosningunum í fyrra þegar flokkurinn fékk þrjá þingmenn.

Miðflokkurinn nýtur fylgis 9,8% kjósenda og fengi sex þingmenn. Píratar fengju sex þingmenn, tapa fjórum. Framsóknarflokkurinn fengi fimm þingmenn, tapar þremur. Viðreisn fengi einnig fimm þingmenn, tapar tveimur. Björt framtíð fengi engan þingmann kjörinn og ekki heldur Flokkur fólksins, Alþýðufylkingin og Dögun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »