Fagnar 18 ára afmælinu á kjördag

Gústav Kári Óskarsson er 18 ára í dag.
Gústav Kári Óskarsson er 18 ára í dag. mbl.is/Eggert

„Mér finnst það ekkert leiðinlegt en er heldur ekkert mjög spenntur,“ segir Þróttarinn Gústav Kári Óskarsson, sem er fæddur 28. október 1999 og er því 18 ára í dag. Röð atburða á pólitíska sviðinu hefur valdið því að í dag er kjördagur, enda viðurkennir Gústav í samtali við mbl.is að hann hafi ekki gert ráð fyrir því að kjósa svo snemma.

Gústav segist mjög lítið hafa fylgst með kosningabarátunni eða þeim atburðum sem leiddu til þess að ríkisstjórnin sprakk í haust. Hann segist þó reikna með að kjósa. „Ég er ekki búinn að kynna mér þetta nógu vel,“ sagði Gústav þegar mbl.is ræddi við hann fyrir helgi. Hann reiknaði þó með að taka kosningapróf RÚV til að hjálpa sér við valið.

Afmælisbarnið leggur stund á nám á náttúrufræðibraut við Menntaskólann við Sund en æfir og keppir samhliða því í knattspyrnu með 2. flokki Þróttar.

Hann gerir ráð fyrir að útskrifast úr MS í vor og hugurinn leitar út. „Það er stefnan,“ segir hann spurður hvort hann langi til að ná langt í boltanum. „Það væri gaman að komast til Bandaríkjanna í háskóla,“ segir hann um framtíðaráformin, en ungmenni geta stundum fengið skólastyrk til náms í Bandaríkjunum ef þau skara fram úr í íþróttum. Hann segir að ef til vill stefni hann á atvinnumennsku í knattspyrnu, þegar fram líði stundir. Það verði þó að koma í ljós.

Stjórnmál eru ekki ofarlega á baugi í vinahópnum hjá Gústav en hann segir dæmi þess að umræðuefnið hafi komið upp innan fjölskyldunnar undanfarið. Hann hafi þó lítið sett sig inn í stjórnmálin. Gústav er þó staðráðinn í að nýta nýfenginn kosningaréttinn, fyrst svona ber upp á.

Hann segist aðspurður ekki ætla að halda upp á afmælið sitt að öðru leyti en því að hitta vini sína.

mbl.is