Óttarr hættir sem formaður

Óttarr Proppé.
Óttarr Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hefur sagt af sér formannsembættinu í ljósi úrslita kosninganna á laugardaginn þar sem flokkurinn hlaut einungis 1,2% atkvæða og missti öll þingsæti sín. Þetta tilkynnti Óttarr flokksfélögum sínum í dag.

„Úrslit alþingiskosninga á laugardag voru sérstaklega ömurleg fyrir flokkinn okkar og þá umhverfisvænu frjálslyndispólitík sem við stöndum fyrir. Mér finnst eðlilegt að axla ábyrgð á þessari stöðu og segja af mér embætti formanns Bjartrar framtíðar. Verkefnin framundan eru stór og mikilvæg. Það fer betur á því að aðrir leiði þá endurskoðun og uppbyggingu sem framundan er,“ segir Óttarr á Facebook.

Óttarr segir ljóst að þátttaka í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hafi haft mikil og neikvæð áhrif á traust til Bjartrar framtíðar. Nær ómögulegt hafi verið að vekja athygli á málefnum og áherslum flokksins í aðdraganda kosninganna sem væri miður. Það væri auðvelt að vera vitur eftir á.

„Augljóst er að róttæk naflaskoðun er framundan. Ég hóf þátttöku í stjórnmálum til að gera gagn. Það er hægt að gera á ýmsa vegu. Í þessum kosningum gerði formennska mín flokknum ekki gagn. Við slíkar aðstæðir gerir það hugsjónum ógagn að rembast eins og rjúpa við staur. Þá er betra að rétta keflið áfram og hjálpa á annan hátt.“

Óttarr segir úrslit kosninganna áhyggjuefni fyrir fleiri en Bjarta framtíð. „Það eru grundvallarbreytingar í loftinu og ekki allar jákvæðar. Gildi og áherslur Bjartrar framtíðar skipta máli fyrir samfélagið.“ Þakkar hann að lokum stuðninginn og samferðina.

Björt framtíð hlaut fjóra þingmenn í þingkosningunum á síðasta ári og tók síðan þátt í því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn í janúar. Sú stjórn leið undir lok í haust þegar Björt framtíð yfirgaf hana sem leiddi til nýrra kosninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina