Sáttur við vikulangar viðræður

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að loknum þingflokksfundinum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að loknum þingflokksfundinum. mbl.is/Eggert

„Við vorum að fara yfir þessar óformlegu viðræður og staðfesta ásetning okkar um að vilja fara í þessar viðræður og breyta þeim í formlegar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhansson, formaður Framsóknarflokksins, á Alþingi að loknum þingflokksfundi flokksins.

Hann bætti við að góð samstaða væri um að fara í formlegar viðræður.

Hvernig heldurðu að viðræðurnar eigi eftir að ganga?

„Miðað við hvað þær gengu vel á föstudag og laugardag er ég vongóður um að þær muni ganga vel í framhaldinu,“ sagði Sigurður Ingi.

„Við höfum ekki sett okkur nein tímamörk en ef þetta gengi á einni viku væri ég sáttur við það.“

Aðspurður hvort hann teldi að það hefði einhver áhrif á viðræðurnar að ekki ríkti eining um þær innan þingflokks VG, sagðist Sigurður ekki telja það. „Mér hefur heyrst á forystumönnum VG að það ríki einhugur um að fara í þessar viðræður af fullum hug og heilindum, þannig það held ég ekki.“

Hann sagði meirihlutann auðvitað minnka sem þessum tveimur þingmönnum nemur, yrði þetta niðurstaðan. „Þetta var auðvitað bara afgreiðsla um að fara í formlegar viðræður. Svo á eftir að ná saman um formtexta og bera það aftur undir viðkomandi apparöt í öllum flokkum. Það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið.“

Hann reiknar með því að hitta formenn hinna flokkana í dag og ræða við þá um næstu skref.

Framsóknarmenn í sínu fundarherbergi.
Framsóknarmenn í sínu fundarherbergi. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi sagði að augljós þörf væri á uppbyggingu í heilbrigðismálum, mennta- og samgöngumálum og löggæslu. „Við höfum líka rætt um mikilvægi jafnréttis í sinni víðustu mynd, þar á meðal jafnrétti landsmanna allra til þjónustu ríkisins á ólíkum sviðum og að það sé tækifæri til að nýta þessar aðstæður sem eru uppi í samfélaginu, efnahagslegur stöðugleiki og umtalsverður afgangur af ríkisfjármálum, til þess að fara í slík verkefni og einbeita okkur að þeim.“

Hann kvaðst jafnframt sannfærður um að þessi stjórn, ef hún yrði að veruleika, gæti náð breiðri skírskotun þannig að pólitískur stöðugleiki yrði meiri hér á landi og sáttin í samfélaginu yrði meiri. „Með því að einbeita okkur að þessum verkefnum sem allir eru meira og minna sammála um að þurfi að fara í þá getum við vonandi náð að uppfylla þær væntingar sem landsmenn hafa til ríkisstjórnar.“

mbl.is