Málefnasamningur náist um helgina

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir í ráðherrabústaðinn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir í ráðherrabústaðinn. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, vonast til að hægt verði að ljúka við málefnasamning í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna um helgina. Stjórnarsáttmáli yrði þá kynntur eftir helgi.

„Staðan er bara ágæt, það er allt á eðlilegri ferð,“ sagði Bjarni fyrir fund sinn með Katrínu Jakobsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni í ráðherrabústaðnum.

„Mér finnst vera ágætis bjartsýni í þessu samtali og við erum að þessu til að ná saman. Auðvitað getur maður ekki útilokað að eitthvað komi upp á en mér finnst þetta ganga ágætlega.“

Spurður út í skiptingu ráðherrastóla og fjölgun ráðuneyta sagði hann því samtali ekki vera lokið. Það sé heldur ekki aðalatriði vinnunnar.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra ...
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra þriggja flokka sem nú ræða ríkisstjórnarmyndun, hittust í ráðherrabústaðnum eftir hádegi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hann sagði að meðal annars hafi verið rætt um hvort Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra og að honum þætti þá eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fleiri ráðherrastóla í staðinn.

„Við erum líka að horfa svolítið breitt yfir sviðið og svara spurningum fyrir samfélagið í heild og fyrir stjórnmálin. Við þurfum bara okkar tíma og ég held að allir hljóti að skilja að á meðan á þeirri vinnu stendur getum við ekki verið að úttala okkur um það. Þess vegna þurfum við smá vinnufrið í nokkra daga til þess að reyna að ljúka þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina