Bjartsýnn á miðstjórnarfund í næstu viku

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir kosningarnar í haust hafa …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir kosningarnar í haust hafa verið mikla áskorun fyrir Framsóknarflokkinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innihald stjórnamyndunarviðræðna Framsóknarflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks miðar vel áfram. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, við fundargesti á haustfundi miðstjórnar flokksins sem haldinn er í Miðfirði, Laugarbakka í dag.

„Án þess að ég geti farið nánar út í innihald viðræðnanna þá hefur þeim miðað vel áfram,“ sagði Sigurður Ingi. „Við viljum gera þetta vel og erum því að vanda okkur. Ef allt gengur upp þá verður boðað til miðstjórnarfundar um miðja næstu viku. Meira um það síðar.“

Kosningarnar mikil áskorun fyrir Framsókn

Sagði hann kosningarnar í haust hafa verið mikla áskorun fyrir Framsóknarflokkinn. „Saman sigldum við í gegnum djúpan öldudal en við bárum gæfu til að rísa upp. Við máttum sjá á eftir ýmsum. Fólki sem flokkurinn hafði treyst og trúað fyrir ýmsum trúnaðarstörfum, fólki sem valdi að yfirgefa okkar trausta og gamalgróna flokk. Góðum og almennum flokksmönnum.“

Það hefði þó einnig verið ánægjulegt að sjá nýtt fólk bætast í flokkinn. „Sumir sem höfðu hoppað af vagninum síðustu ár, en einnig kom inn nýtt fólk sem fann samleið með okkur við þessar aðstæður. Skarðið sem varð í röðum okkar minnkar óðum. Með öflugu starfi inná við í flokknum og út á við í sveitarstjórnum og landsmálum munum við fylla það aftur og meira til, með góðri samvinnu okkar á milli.“

Framsóknarflokkurinn hafi þá lagt áherslu á að að loknum kosningum þyrfti að mynda þyrfti trausta ríkisstjórn sem stuðli að pólitískum, félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. „Ríkisstjórn með breiða skírskotun frá hægri til vinstri yfir miðjuna. Framundan eru stór verkefni sem við sem þjóð þurfum að sameinast um. Þess vegna höfum við lagt á það áherslu í stjórnarmyndunarviðræðunum að eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins, landlækni og fleiri til að ramma inn grundvöll að frekari samtali milli flokkanna og um þau stóru og mikilvægu verkefni.“

Skapa samhljóð milli ríkis og sveitarfélaga

Sigurður Ingi gerði sveitarstjórnarkosningar á komandi ári einnig að umtalsefni sínu.

„Framundan eru sveitarstjórnarkosningar. Mikilvægt er að skapa sem mestan samhljóm á milli ríkis og sveitarfélaga. Uppbygging innviða og grunnþjónustu ræðst ekki síst af góðu samstarfi þeirra á milli.“ Mikilvægt sé því að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að vinna af krafti til að tryggja framgang flokksins í sveitarstjórnarkosningunum og til þess þurfi að koma á vel skipulagðri málefnavinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert