Sigmundur hæðist að stjórnarsáttmálanum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að með nefndarþátttöku eigi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að með nefndarþátttöku eigi að dreifa aðgerðarleysi jafnt milli stjórnar og stjórnarandstöðu.. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerir stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að umfjöllunarefni í kaldhæðnislegum pistli sínum á vefsíðunni Miðpunktinum, sem hann vísar í á facebooksíðu sinni. Segir Sigmundur Davíð m.a. að samkvæmt stjórnarsáttmálanum muni allir eiga rétt á öruggu húsnæði nema á Landspítalanum.

Segir Sigmundur Davíð ríkisstjórnina munu vinna að stöðugleika og velferð með víðtæku þverfaglegu, þverpólitísku og „þversagnakenndu samráði auk ýmiss konar samskipta. Hún mun nálgast viðfangsefnin af virðingu og með sjálfbæru og heildrænu gagnsæi. Teymi staðalvottaðra fagaðila mun vinna að breyttum og endurnýtanlegum vinnubrögðum í anda opinnar stjórnsýslu“.

Þá verði stuðningur við þingið aukinn og séð til þess að þingmenn stjórnarandstöðu „þurfi að taka þátt í sem flestum nefndum um alls konar málefni sem nauðsynlegt verður að svæfa á kjörtímabilinu“. Með því móti dreifist ábyrgð á aðgerðarleysi jafnar milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Slíkt feli í sér að minna máli skipti „hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma og þar með hvaða flokka fólk kýs“.

Landsmenn muni ennfremur „eiga rétt á öruggu húsnæði (nema á Landspítalanum)“. Fjármálaráðuneytið muni sömuleiðis halda áfram að vinna að því að undirbúa skref að afnámi verðtryggingarinnar, en í ráðuneytinu hafi verið „byggð upp mikil reynsla sem nýtast mun við að þæfa málið út kjörtímabilið“.

Loks verði sérstakur þjóðarsjóður stofnaður fyrir hagnaðinn af Kárahnjúkavirkjun og öðrum virkjunum landsins og af sölu raforku til álframleiðenda. „Sjóðurinn á að verða varasjóður til að mæta efnahagslegum áföllum framtíðar en í millitíðinni verða peningar úr honum notaðir í að byggja hjúkrunarheimili, styðja fyrirtæki og allt,“ segir Sigmundur Davíð í pistli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert