Vanmeti hvað sé þjóðfélaginu til heilla

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segist telja að VG vanmeti hvað ...
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segist telja að VG vanmeti hvað sé þjóðfélaginu í heild til heilla til lengri tíma. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lykilatriði í styrkingu lýðræðisins er að tryggja lagaumhverfi sem gerir fjölmiðlum kleift að miðla upplýsingum sem teljast mikilvægar í pólitísku samhengi og eiga erindi til almennings. Þetta sagði Halldóra Mogensen þingmaður Pírata í ræðu sinni á alþingi nú í kvöld

„Það þýðir að ekki sé hægt að setja lögbann á fjölmiðil þegar hann miðlar upplýsingum sem koma sér illa fyrir stjórnmálaflokk korter fyrir kosningar.“

Kvaðst Halldóra enda hafa áhyggjur af því að með því „að leiða flokk til valda sem hefur síendurtekið staðið gegn lýðræðisumbótum og verið staðin að því að misnota vald sitt“, þá hafi Vinstri hreyfingin grænt framboð vanmetið hvað sé þjóðfélaginu í heild til heilla til lengri tíma. Ólíklegt sé því að stjórnin nái að byggja upp traust á stjórnmálum og þinginu, eða að styrkja lýðræðið á Íslandi.

Traust á stjórnmálum og Alþingi felist í bættum vinnubrögðum og lýðræðislegum ferlum sem tryggi aðkomu almennings alls. „Ekki bara sérhagsmunafla að stefnumótun, samningu laga og ákvarðanatöku. Það á enginn að geta, í krafti fjármagns eða frændhygli, komið hagsmunamálum sínum á framfæri framyfir hagsmuni almennings,“ sagði Halldóra.

Dregið úr spillingu með valdeflingu almennings

Aðkoma almennings að ákvörðunartöku sé verulega mikilvæg, því með henni dreifist valdið og ábyrgðin. „Með valdeflingu almennings drögum við úr spillingu og valdeflum á sama tíma þingmenn til að finna nauðsynlegt hugrekki í að knýja fram þær breytingar sem þörf er á til að geta mætt framtíðinni með áætlun sem þjónar heildinni og þar af leiðandi framþróun samfélagsins alls.“

Þetta séu þeir hagsmunirnir sem teljist öðrum mikilvægari, ef fórna eigi minni hagsmunum fyrir meiri líkt og forsætisráðherra hafi talað um. „Sérstaklega í ljósi þeirra stórkostlegu breytinga sem við stöndum frammi fyrir, ekki bara við Íslendingar heldur mannkynið allt og við verðum að þróast ef við ætlum að lifa þær af.“

Sagði Halldóra orðið tímabært að horfast í augu við grundvallarspurningar um gagnsemi núverandi kerfa. „Hvort þau sé raunverulega að þjóna heildinni og byrja að takast á við rót vandamálanna í stað þess að plástra mein sem eru inngróin og kerfislæg. Mikilvægast er að byrja á efnahagskerfi sem grundvallast af hugmyndafræði um línulegan, óendanlegan hagvöxt á plánetu sem hefur ekki yfir óendanlegum auðlindum að ráða.“

Sjaldan hefur stjórn þurft jafnmikið á aðstoð að halda

Hætta steðji að mörgum skilyrðum þess að jörðin sé áfram „falleg, gjöful, og megnug um að bera mannlegt líf; hættur sem nútímatækni er líklegast ófær um að laga jafnvel ef mikil áhersla væri lögð á það. Þrátt fyrir þetta er mælikvarði okkar á árangur og velferð ennþá verg landsframleiðsla, magn þess varnings sem við sköpum án tillits til þess hver raunverulega þörfin er. Þannig látum við efnahagskerfið okkar vinna beinlínis gegn þeim kerfum sem við byggjum tilverurétt okkar á.“

Þetta er hin raunverulega hætta sem að okkur steðjar sagði Halldóra. Hún fagni því vissulega að stjórnin hafi það markmið að „tryggja góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk”, en gráti á sama tíma þær lýðræðisumbætur sem hafi verið fórnað. „Því sjaldan hefur ríkisstjórn þurft jafnmikið á aðstoð almennings til að veita sér hugrekki, getu og vilja til að tækla rót þeirra risastóru vanda sem við stöndum fyrir til að geta raunverulega skilað góðum lífskjörum til framtíðar fyrir alla.“

mbl.is